143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:24]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa góðu umræðu. Sá sem hér stendur hefur gjarnan sungið eftirfarandi línur með hljómsveit sinni, með leyfi forseta:

Óréttlætið, það er óréttlátt,

það verður seint tekið í sátt.

Þetta eru línur sem er alltaf sérstaklega gaman að flytja vegna þess að undirtektirnar eru mjög miklar og jákvæðar. Fólk gerir sér almennt vel grein fyrir mannréttindum og það er ekki bara að þetta hafi verið smellið rím, heldur er það inntakið sem allir virðast spegla sig í.

Síðustu áratugi höfum við skilgreint mannréttindi æ betur. Við höfum áttað okkur á mikilvægi þess og þörfinni á að byggja upp mannréttindi margra hópa og í þeirri breytingu hefur verið stofnað til stofnana og úrræða sérstaklega til að styrkja mannréttindi ákveðinna hópa. Það er alls ekki óeðlilegt að skoða það að sameina stofnanir sem hafa verið búnar til sértækt til þess að auka slagkraftinn og auka og bæta þjónustu og standa frekar vörð um mannréttindi.

Það er mikilvægt alltaf þegar verið er að sameina stofnanir eða þjónustu að það sé ekki bara gert til að safna saman mörgum hefturum af mörgum skrifborðum og hrúga þeim á færri skrifborð og sjá hvað gerist. Það er mjög mikilvægt að við hugsum málið til enda, undirbúningurinn sé faglegur og góður og að passað sé upp á að breytingar bitni ekki á þjónustunni á meðan á þeim stendur.

Ég tek einnig undir orð þingmanna á undan mér um að Persónuvernd og umboðsmaður barna séu öðruvísi stofnanir en aðrar sem nefndar eru og ætti að aðskilja áfram.