143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[15:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég sé að raðað hefur verið þannig á dagskrána að þetta mikla mál er haft hér fremst stjórnarfrumvarpa, það er greinilega mikill áhugi á því hjá hæstv. ríkisstjórn að troða þessu áfram, sem ég satt best að segja skil ekki því að ég mundi nú í sporum hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða skammast mín svo mikið fyrir þetta mál að ég mundi reyna að fela það með öllum tiltækum ráðum og helst fá það hér á dagskrá um miðnæturbil ef þess væri kostur að ræða það að nóttu til.

Ég lýsti hér í umræðunni eftir metnaði hæstv. ráðherra til umhverfismála almennt. Mér finnst þetta ekki hafa farið skemmtilega af stað fyrir hönd þessa mikilvæga málaflokks sem flestir eru nú sammála um að sé einhver afdrifaríkasti og mikilvægasti málaflokkur sem stjórnmálamenn fást við nú á tímum og til framtíðar litið. En einhvern veginn hefur þetta nú tekist þannig í þessu stjórnarsamstarfi að umhverfismálin eru einhver aukabúgrein, ráðherrann er látinn sinna þessu svona með annarri hendinni úr öðru ráðuneyti og flest af því sem við höfum heyrt hefur nú ekki vísað til framtíðar eða framfara í þessum málaflokki heldur er allt í bakkgírnum á fullri ferð.

Frumvarpið eins og það kemur fram vekur líka mikla furðu og greinargerðin er einhver allra aumasta, snautlegasta greinargerð sem ég hef lengi séð vegna þess að í henni er enginn almennilegur rökstuðningur, enginn. Ráðherrann boðaði þetta frumvarp fyrir býsna löngu síðan en svo virðist honum ekki liggja á að koma því frá sér til þingsins. Er það gert til þess að þingið hafi sem minnst ráðrúm og það styttist í gildistöku laganna sem áformuð er?

Að sú leið sé valin hér að leggja einfaldlega til brottfall laganna í heild sinni hinn 1. apríl 2014 í stað þess að þau öðlist gildi vekur auðvitað miklar spurningar. Það gefur vinnu ráðuneytisins og ráðherrans ekki háa einkunn. Af hverju var þá í fyrsta lagi ekki farið yfir það hvort einhverjir afmarkaðir þættir þessarar nýju löggjafar þyrftu skoðunar við? Af hverju er ekki gerð grein fyrir því í greinargerðinni? Af hverju fá þá a.m.k. ekki ný tiltekin kjarnaatriði umhverfisréttarins að halda gildi eða eru felld að eldri löggjöf ef hún yrði látin gilda áfram um skeið, eins og bent var á hér í umræðum í gær?

Nei, það er hvorugt, það eru ekki tilburðir í þá átt heldur bara burt með lögin eins og þau leggja sig, henda þeim. Það er mjög þjösnaleg nálgun. Það hefðu margar leiðir verið færar í þessu og sú besta hefði auðvitað verið, ef stjórnarflokkarnir hefðu áhuga á því að setja þetta mál í skoðun, að gera það strax eftir stjórnarmyndun, bera upp við Alþingi hvort hægt væri að setja einhverja vinnu í gang, t.d. af hálfu þingsins sjálfs, sem hafði lagt gríðarlega vinnu í að ganga frá eldri löggjöf og gert tugi breytinga á frumvarpinu til þess að aðlaga það að sjónarmiðum sem fram komu í umsögnum, mæta málefnalegri gagnrýni o.s.frv. En það er ekki gert.

Þetta er óboðlegur málflutningur. Röksemdafærslan fyrir þessari leið er engin. Þetta er geðvonska og einhver meinbægni frá fyrra kjörtímabili af því að mönnum hentaði það hér í návígi við síðustu alþingiskosningar að æsa sig upp í sambandi við nýju náttúrverndarlögin og vera á hlaupum eftir allri gagnrýni, hvort sem hún byggðist á misskilningi eða var málefnaleg, úti um dali og hól og æsa sig upp á fundum út af þessu. En þegar til stykkisins kom greiddu menn ekki einu sinni atkvæði gegn málinu nema í sárafáum tilvikum, andstaðan var ekki meiri í reynd en sú að stjórnarliðar sátu að uppistöðu til hjá, ef ég man rétt. Kjarkurinn var þá ekki meiri og andstaðan risti ekki dýpra enda var þetta pólitísk æsingamennska fyrir kosningar, en hún ræður því miður enn ríkjum.

Hugsanlega hafa stjórnarliðar verið eitthvað feimnir við að greiða þá í samræmi við málflutning sinn allir sem einn atkvæði gegn lögunum, nýjum heildarlögum um náttúruvernd. Það stóð kannski eitthvað í þeim, því að auðvitað átta menn sig á því, menn eru ekki svo skyni skroppnir í stjórnmálum nútímans að þeir viti ekki að það er nú dálítið að fara þannig gegn nútímalegum sjónarmiðum í umhverfismálum þannig að auðvitað reyna menn að fela bláa litinn á sér og mála sig jafnvel græna stundum þegar tíðarandinn blæs þannig. Við munum öll eftir því þegar allir fóru að grænka svona óskaplega rétt fyrir kosningarnar 2007 af því að þá var sveifla með umhverfismálunum. Þá ruku allir fram sem ekki höfðu nú haft hátt í slagnum árin á undan um Eyjabakka eða Kárahnjúkavirkjun eða hvar það var, og fóru að verða grænir, sögðust vera miklir umhverfisverndarsinnar. Það náði hápunkti sínum þegar fálkinn var orðinn grænn á forsíðu Morgunblaðsins. En mogginn rembdist við það í margar vikur og mánuði að skrifa um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn mikill umhverfisverndarflokkur. Annað hefur nú komið á daginn.

Framsóknarflokkurinn á sér að mörgu leyti þá merku arfleifð að vera flokkur Eysteins Jónssonar sem barðist fyrir umbótum í náttúruverndarmálum og átti aðild að því að koma Náttúruverndarráði á fót og sat í því og lagði metnað í það. Seinna kom nafni minn Hermannsson sem hafði mikinn metnað fyrir hönd Framsóknarflokksins að taka umhverfismálin föstum tökum. Framsóknarflokkurinn er auðvitað svoleiðis heillum horfinn í þessum málaflokki að það hálfa væri nóg. En nú er tækifærið t.d. fyrir nýja þingmenn Framsóknarflokksins að reka af sér slyðruorðið og segja við hæstv. umhverfisráðherra: Nei, þetta gengur ekki, við látum ekki bjóða okkur þetta. Við viljum fá að taka þátt í því hér í þinginu að skoða þá einstök atriði löggjafarinnar, eftir atvikum laga þau. Í þá vinnu er vel hægt að fara núna á þeim mánuðum sem fram undan eru fram að 1. apríl. Sérstaklega hefði það verið auðvelt ef ráðuneytið hefði unnið heimavinnuna sína og listað upp og farið yfir þau álitamál í frumvarpinu sem þetta snýst þá um. En það er ekki gert.

Hvers konar röksemdafærsla er það í stjórnarfrumvarpi að segja að „yfirbragð frumvarps þess er varð að lögum […] einkenndist of mikið af boðum og bönnum“? Ráðuneytið virðist eiginlega vera að vísa í einhverja ótilgreinda gagnrýni utan frá, að mönnum hafi virst svona einhvers staðar frá að yfirbragð málsins einkenndist um of af boðum og bönnum. Hvers konar röksemdafærsla er þetta? Hvar er það í lögunum (Gripið fram í.) sem farið er offari í boðum eða bönnum, a, b, c, d? Getur ráðuneytið ekki einu sinni druslast til að vinna þá vinnuna sína og skilgreina þau álitamál sem verða þess valdandi að lagt er til við Alþingi að fella lögin í heild sinni úr gildi? Þá væri hægt að takast á um þetta efnislega en það er nánast ekki boðlegt eins og þetta er sett fram í frumvarpinu.

Hér virðist líka t.d. algerlega horft fram hjá þróun umhverfisréttarins eins og hún hefur verið. Það er látið eins og klukkan hafi staðið í stað síðan 1999 eða 1973 eða ég veit ekki hvað. En er það þannig? Er þetta ekki það svið réttarins sem þróast hefur hvað hraðast núna undanfarin 20, 30 ár frá Ríó-ráðstefnunni og síðar? Víða í nágrannalöndunum er það þannig að grundvallarreglur umhverfisréttarins eru komnar inn í stjórnarskrár viðkomandi ríkja, t.d. bara réttur manna til heilnæms umhverfis og réttur náttúrunnar sjálfrar í eigin ágæti, að náttúran sjálf á að eiga sinn rétt. Hún á ekki að vera hlutuð sundur því að hún er ein heild eins og hér var réttilega bent á í umræðum í gær.

Svo er það sáttatalið. Jú, það á að skapa meiri sátt, en hvernig og við hverja? Var ekki aldeilis búið að vinna þetta í opnu ferli með áralöngum aðdraganda þar sem öll sjónarmið komust að, þó að öllum þætti ekki niðurstaðan endilega eins og þeir vildu hafa hana? Jeppamenn vildu kannski hafa sumt öðruvísi og mótorhjólamenn annað öðruvísi, þeir sem fara um á hestum vildu e.t.v. eitthvað, gangandi umferð o.s.frv. En það sem fólgið er í þessu máli er að finna málamiðlanir og vega saman hagsmuni og það er náttúran sem á að vera í öndvegi í náttúruverndarlögum en ekki einhverjir þröngir sérhagsmunir. Í hvaða löggjöf landsins á náttúran að hafa forgang ef það er ekki í náttúruverndarlögum? Hvergi. Það er þannig. Þetta eru lög fyrir náttúruna en ekki fyrir einhverja einstaka þrýstihópa. Ég gef því lítið fyrir þetta sáttatal, sérstaklega eins og það er hér fram sett af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Svo kemur það fátæklega sem sagt er um framhaldið, það er nú ekki mikið og við erum litlu nær um hvað til stendur, bara slá alla þessa vinnu af á einu bretti, henda henni, stúta lögunum. En svo segir að gert sé ráð fyrir að nýtt frumvarp muni samt sem áður, þrátt fyrir alla gagnrýnina, að einhverju leyti byggja á þeirri miklu vinnu sem unnin var og allt það. Að einhverju leyti á kannski að gera eitthvað með það sem að baki lá, hvítbókinni, öllu umsagnarferlinu og þeim langa aðdraganda sem þetta mál átti sér og miklar vonir hafa verið bundnar við af mjög mörgum að horfði til framfara í okkar málum. Þær stofnanir sem þarna voru farnar að undirbúa sig fyrir gildistöku nýju laganna áttu sumar hverjar að fá aukið hlutverk, þetta er snautleg kveðja til þeirra.

Ég man t.d. eftir því að í ársriti Náttúrufræðistofnunar var umfjöllun um nýju lögin og stofnunin fagnaði því hlutverki og þeim skyldum sem hún átti að taka að sér samkvæmt lögunum og sagðist mundu reyna að rísa undir þeim. Því er þá öllu auðvitað hent sem og, og það er kannski alvarlegasti hlutur málsins, að hér fer þá í vaskinn — ja, við vitum ekki hvað mörg ár gagnvart því að taka á tilteknum brotalömum í núverandi ástandi sem allir eru meira og minna sammála um. Dæmi: Utanvegaakstur. Það er vonandi enginn hér í salnum sem mælir því bót hvernig ástandið hefur verið og er. Við vitum það öll að það er ekki í lagi, það er ekki eins og við viljum hafa það. Ég held að það vilji enginn hafa það eins og það er, því að að uppistöðu til vilja auðvitað allir fara að lögum og reglum og ganga vel um landið. En það er alveg ljóst að það þarf styrkari stýritæki til þess að hafa hemil á því að slóðar myndist víða á hálendinu tilviljanakennt og smátt og smátt fari menn að líta á það sem vegi sem heimilt sé að aka um. Um það hefur verið rækilega fjallað t.d. í umræðunni hér í gær og áður í umræðum um sérstaka tillögu um vegamál á hálendinu.

Kortagrunnurinn sem hér átti að vinna er eina leiðin sem fær er í þeim efnum, það er margbúið að fara yfir það. Það verður með einhverjum hætti að leiða í ljós og ákveða hvar við leyfum við akstur og hvar þær leiðir eru og merkja þær þannig að allir viti að þar eru þeir í góðum málum, þar mega þeir keyra en ekki annars staðar. Það getur ekki gengið að tilviljanakennd þróun af þessu tagi haldi áfram, að það myndist bara slóðar ef einhver leggur þar leið sína um, aðrir keyra þar í kjölfarið og smátt og smátt fari menn að líta á hvað sem er sem vegi sem megi keyra. Það er ómögulegt. Við sem höfum eitthvað farið um hálendið vitum auðvitað hvernig þetta er. Menn þurfa ekki að hafa gengið yfir það allt saman til þess. Þar sem við þekkjum vel til á ýmsum slóðum er ástandið ekki gott. Á norðausturhálendinu er stærsta ósnortna víðerni Íslands, það er stærsta svæðið að flatarmáli sem er ósnortið af vegagerð, byggingum, raflínum og öðru slíku. Svæðið í norður frá Möðrudal á Fjöllum, vestur undir Öxarfjörð, norður undir Sléttu, Þisitilfjörð, Langanesströnd og Vopnafjörð er gríðarlega víðáttumikið svæði sem ég hef haft drauma um að gera að einhvers konar göngu- og reiðleiðafriðlandi. Það er enn þá laust við gegnumferð, það eru engir viðurkenndir vegir frá strönd og inn á hálendi heldur bara slóðar upp í gangnakofa o.s.frv. En nú er vaxandi ásókn inn á þetta svæði, m.a. vegna hreindýraveiða. Hver stjórnar því meðan enginn skikkur er á þessum málum hvar menn keyra á þurru viðkvæmu landi sem auðvelt er að fara um á þannig útbúnum bílum?

Með þessari nálgun ráðherrans hér er þessu öllu stútað, vinnan öll sett á ís og ekkert gerist — í hvað langan tíma? Í tvö ár, þrjú ár? Hvað ætlar hæstv. ráðherra sér langan tíma í að liggja yfir þessu og meta það og velta því fyrir sér hvað af þessu notast og hvað ekki? Á hverju á að byggja, ef við tökum þá yrðingu nú alvarlega? Á varúðarreglunni? Fær hún að fljóta með í banka ráðherrans þegar hann fer að stjórna því hvað eigi að vera í nýjum náttúruverndarlögum? Ja, maður spyr. Er það kannski þannig að andúðin á þessu máli sé þegar upp er staðið við að leiða grundvallarreglur umhverfisréttarins í lög á Íslandi? Að það sé enn slík forneskja uppi hér í þessum málum 20, 30 árum eftir Ríó, að verið sé að reyna að beita bolabrögðum til þess að við komumst ekki í siðaðra manna tölu að þessu leyti? Ja, það er von að maður spyrji.

Nei, virðulegur forseti, þetta er alveg ómögulegt mál eins og það er hér fram borið. Það er líka svo lélegt af hálfu ráðuneytisins eða ráðherrans sem flytur það, greinargerðin er svo mikil hörmung að það er ekki á borð berandi fyrir hv. alþingismenn. Það á bara að henda þessu. Umhverfis- og skipulagsnefnd getur eftir sem áður farið yfir lögin áður en þau taka gildi og velt fyrir sér (Forseti hringir.) möguleikum á því að gera þar einhverjar breytingar.