143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það umdeilda frumvarp til laga um náttúruvernd sem við fjöllum hér um, hin nýja heildarlöggjöf sem var samþykkt í vor, hefur það að markmiði að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru. Nú er hins vegar ætlunin að fella lögin úr gildi í heild sinni í stað þess að nýta tímann frá því að hæstv. ráðherra tók við sinni stöðu og fram að gildistöku, sem er nú um það bil ár, heildartíminn, og lagfæra það sem stjórnarmeirihlutinn telur að þurfi að laga. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að frumvarpið felur í sér heilsteyptari og skýrari lagaumgjörð en við höfum áður haft um vernd íslenskrar náttúru.

Við setningu umhverfisþings föstudaginn 8. nóvember tilkynnti umhverfisráðherra að þegar nýju náttúruverndarlögin væru frá yrðu smíðuð nýrri lög í samráði og sátt við alla aðila. Ég dreg í efa að það verði hægt að ná sátt við alla aðila. Ég held að það sé erfiðleikum bundið með svona stóra og viðamikla löggjöf. Margir hafa líka velt því fyrir sér eins og komið hefur fram í umræðunni af hverju ráðherra lætur ekki duga að endurskoða þau ákvæði nýju laganna sem hann telur of umdeild eða er sjálfur ósáttur við. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að það væri svo margt sem þyrfti að laga að nauðsynlegt væri að fella lögin úr gildi og semja ný. Hann rökstuddi það í afar fáum atriðum og af því að hér var talað um „efnislegt“ rétt áðan var það akkúrat ekki þannig sem rökstuðningur hans hljómaði.

Í gær kom fram spurning í ljósi þessarar skoðunar ráðherrans hvort raunverulega verði unnið á grunni hvítbókarinnar ef stór hluti laganna er ómögulegur að mati ráðherrans. Ég vona að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem hér hafa komið fram í umræðunni. Langur tími og mörg tækifæri gáfust til að koma með athugasemdir og leggja þær fram því að ferlið stóð frá 2009 til vorsins sem leið, sem hlýtur að teljast gott tækifæri til samráðs. Við getum svo deilt um hvort fara eigi eftir öllum þeim athugasemdum sem fram koma. Það verður þingnefnd á hverjum tíma og þingið að vega og meta. Mikil samskipti voru við fjöldann allan af fólki, m.a. við Samband íslenskra sveitarfélaga sem hæstv. ráðherra vék að í sínu máli, og breytingar gerðar í ferlinu sem sneru að innkomnum athugasemdum. Það má lesa í bloggi formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga að sambandið hafi verið mjög ánægt með samstarfið við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á lokastigum vinnslu frumvarpsins sem varð að lögum.

Í seinni tíð má í rauninni segja að líklega hafa fá mál fengið jafn ítarlega umfjöllun í samfélaginu yfirleitt, í það minnsta sem snúa að náttúruvernd eins og þetta mál. Það er auðvitað ánægjulegt að landinn láti sig það varða.

Það kom fram í umræðum í vor og í umræðunum í gær og í dag að málið er yfirgripsmikið og það hefur verið og er töluvert umdeilt. Í umræðunni sem átti sér stað síðastliðið vor kom berlega í ljós að það var lögleiðing varúðarreglunnar sem fólk setti helst fyrir sig. Hér hefur verið komið inn á forsögu málsins, þ.e. gerð hvítbókarinnar, en á einhverjum tímapunkti þarf að ljúka málum af því að það var líka nefnt hér áðan. Þetta mál á sér langan aðdraganda, smíðinni lauk í vor með samþykkt meiri hluta Alþingis. Það hlýtur að vera lokapunktur sem við getum gengið út frá.

Það er þannig með svo mörg lög sem hér eru sett að þau eru ekki alveg ómöguleg þó að það þurfi að lagfæra þau á einhverjum tímapunkti þegar á þau hefur reynt. Þegar fjallað er um svona stóra heildarlöggjöf er auðvitað hægt að búast við því að það verði álitamál inn í framtíðina, reynslan segir okkur það. Það hefði farið betur á því eins og ég sagði hér áðan að lagfæra þessi atriði fremur en að fella lögin úr gildi. Ég vil trúa því að íbúar landsins trúi því að við séum bandamenn náttúrunnar og að hún skipti okkur öll máli. Að vernda landið og náttúruna og tryggja að við skilum náttúrunni og umhverfinu öllu til komandi kynslóða í sama ástandi og helst betra en við tókum við því. Þetta skiptir miklu máli og er í raun grundvallaratriði málsins enda er náttúruvernd ekki eitthvert stundarfyrirbæri. Við dustum ekki rykið af henni á tyllidögum heldur er hún eitthvað sem skiptir okkur öll máli og fyrir lífskjörin í landinu.

Í umræðunni í vor voru mest í umræðunni 8. gr.–32. gr. og í sjálfu sér ánægjuefni að margir hafi látið sig þetta mál varða. Gerðar voru ítarlegar breytingar sem snertu almannarétt, sérstaklega á 18. gr., sem síðar varð 17. gr. og hér hefur mikið verið rætt um. Þá var færð inn breyting í greinina um akandi umferð til að mæta einmitt athugasemdum og áhyggjum útivistarfólks.

Aukin ferðamennska er staðreynd og ferðamenn sækja mikið í óspjallaða náttúru og þess vegna þarf þessi löggjöf sem snýr að því m.a. að vernda náttúruna að vera sterk og hún á að geta dugað okkur til framtíðar.

Ég ætla að fara hér yfir varúðarregluna í 9. gr., með leyfi forseta, sem hljóðar svo:

„Þegar tekin er ákvörðun, t.d. um skipulag, framkvæmd eða starfsleyfi, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.“

Þetta er kjarni málsins og þetta er deiluefnið. Á heimasíðu Framsóknar segir, og kom einmitt fram í ræðu hæstv. ráðherra að ég held, með leyfi forseta:

„Markmiðið verður að ná sem víðtækastri sátt um lögin og ná lausnamiðaðri sátt sem yrði til jákvæðra breytinga fyrir okkur öll sem unna okkar fallega landi sem og hina fjöldamörgu ferðamenn sem til landsins koma. Lögð verður áhersla á að horfa á málið út frá lausnum, hugsa fram á við og setja sér eftirsóknarverð markmið. Í þeirri vinnu verður tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram um að ekki hafi verið nægjanlegt samráð við fjölmarga hagsmunaaðila. Það þarf að fara í vinnu með ýmis sjónarmið t.d. skógræktarinnar, sveitarfélaganna, ferðafrelsis og Landsambands landeigenda.“

Framsóknarflokkurinn virðist hafa gleymt því að í aðdraganda framlagningar frumvarpsins fór fram mjög mikil og ítarleg vinna og samráð við aðila í samfélaginu, m.a. með nefnd sem hæstv. umhverfisráðherra skipaði í nóvember 2009 og þeirri vinnu lauk með viðamikilli hvítbók.

Virðulegur forseti. Það er því ekki með nokkru móti hægt að segja að hér hafi verið kastað til höndunum á nokkurn hátt. Miklu frekar má segja að hér hafi farið fram afar ítarleg og mikil vinna. Eða heldur hæstv. umhverfisráðherra að markmið þeirra sem lögðu fram það frumvarp sem hér á að afturkalla hafi ekki verið að ná sem víðtækastri sátt? Og ef tekið er tillit til þeirra athugasemda sem bárust og ráðherrann telur að ekki hafi verið tekið tillit til í lögunum er hann þá sannfærður um að allir verði sáttir, þ.e. ef hann ætlar að leggja fram nýtt frumvarp? Eða eru sumir þess fremur verðir að ná fremur sáttum við en aðrir og hverjir eru það þá, hæstv. ráðherra?

Þær breytingar sem settar voru fram í frumvarpinu og fjalla um meginreglur umhverfisréttar kveða með skýrari hætti á um hlutverk stjórnvalda og ábyrgð og verkaskiptingu á milli einstakra stofnana. Frumvarpið sem varð að lögum styrkti stjórnsýslu náttúruverndar, ekki síst á landsbyggðinni. Almannarétturinn hefur verið mikið til umræðu og nokkuð ljóst að þegar við tölum um að almenningi eigi að vera frjáls för um land og einhver á það land er í bæði almannarétti og umgengnisrétti falin ákveðin skerðing á forræði yfir landi. Þetta kemur fram í 17. gr. sem er lykilgrein í málinu, en þar segir, með leyfi forseta: „Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.“ Þetta er mjög mikilvægt.

Hin gamla hugsun um almannaréttinn tekur ekki á þeim breytingum sem hafa orðið á okkar samfélagi. Nú fer almenningur um landið að mestu leyti á einhvers konar ökutækjum, hvort sem þau eru vélknúin, fótknúin eða með öðrum hætti. Þegar unnið var að smíði þessa frumvarps og það klárað síðastliðið vor var til þessa horft og breyting gerð á 18. gr., síðar 17. gr. Hún tók þar af leiðandi á vélknúinni umferð, hún var tekin inn í þessa grundvallargrein um almannaréttinn en skilyrt með þeim hætti sem þar kemur fram, þ.e. að akandi umferð heyri til almannaréttar á vegum og vegslóðum. Við hljótum sem ábyrgir þingmenn að vilja tryggja að akstur slíkra tækja utan vega sé háður mjög skýrum skilyrðum og undanþágur þar frá þurfa að vera afar skýrar.

Í 29. gr. er mikilvægt réttindaákvæði er lýtur að því að þeir sem telja sig beitta hindrunum eða takmörkunum á umferðar- og almannarétti á eignarlandi hafa nú leiðir til að fá úrlausn sinna mála ef þeir telja á sér brotið.

Hér í dag og í gær eins og í vor er leið hefur verið mikil umræða um utanvegaakstur og það góða samkomulag er í samfélaginu um að það er eitthvað sem við eigum ekki að líða og viljum ekki líða. Ég held að það sé enginn ágreiningur um það. Ég fór á fund 4x4 klúbbsins á Akureyri þegar þetta mál lá fyrir umhverfis- og samgöngunefnd síðastliðið vor og hlustaði þar á félagsmenn sem vissulega höfðu athugasemdir. Sumar þeirra voru teknar gildar og aðrar ekki eins og vera ber. Það er ekki hægt að verða við öllu, alls staðar, alltaf, sama hvaða lög er um að ræða hverju sinni. Þessi ágætu félagasamtök hafa haft forgöngu um að beita sér fyrir því að félagsmenn virði þær reglur að akstur utan vega sé ekki leyfður nema þá í sérstökum undantekningum eins og kemur fram í frumvarpinu.

Það voru gerðar umtalsverðar breytingar á þeim greinum sem snúa að akstri utan vega og af því að þetta hefur verið aðeins í umræðunni varðandi bændur, var sérstakt ákvæði þar um, m.a. um fjórhjól. Svo er auðvitað mikilvægt, sérstaklega af því að við vorum í dag að fjalla um réttindi fatlaðs fólks, að í undanþáguákvæðinu er m.a. átt við akstur fatlaðra einstaklinga til að gera þeim eins og öðrum Íslendingum kleift — og ekki bara Íslendingum heldur öllum ferðamönnum — að njóta náttúrunnar. Það er auðvitað mikið réttlætismál. En í öllu falli á akstur utan vega hjá þeim aðilum sem þetta snýr að ekki frekar en hjá öðrum að valda skemmdum eða óafturkræfum náttúruspjöllum. Það er ágætt að rifja upp að þegar lögin voru í vinnslu gerði Sjálfsbjörg athugasemdir við frumvarpið vegna utanvegaaksturs því að þau ákvæði voru talin þrengja um of að og breytingin tók meðal annars á því.

Gerð kortagrunns er eitt af því sem var mikið rætt í vor og skiptir að sjálfsögðu miklu máli því að það er nauðsynlegt að útbúa slíkan kortagrunn og nú þegar er heilmikið til. Það er nauðsynlegt að allir sem aka um landið viti hvar má keyra og hvar ekki. Það er ekki síður mikilvægt fyrir alla þá fjölmörgu gesti sem gert er ráð fyrir að komi til Íslands á næstu árum og áratugum. Að gera slíkan grunn er ekki upphaf og endir alls því að náttúran breytist og ekki ósennilegt að vegir og slóðar sem eru í einhverjum fyrri útgáfum kortagrunnsins hafi fallið algjörlega úr notkun, árfarvegir geta breyst og svo framvegis. Þetta á því auðvitað að vera lifandi plagg.

Töluverðar umræður voru um þau ákvæði sem koma fram í frumvarpinu og varða náttúruminjaskrá, friðlýst svæði og sérstaka vernd. Þegar kemur að ákvæðum um skipulag stjórnsýslu, sem hæstv. ráðherra hefur sagt að séu ekki nægilega skýr, var þó leitast við að styrkja það samband sem er annars vegar á milli skipulagsvalds sveitarfélaga og hins vegar náttúruverndarlaga. Það skiptir auðvitað máli að þarna er einnig komið inn á tengsl við orkunýtingaráætlun og rammaáætlun og það skyldi þó ekki vera það sem reynist ríkisstjórninni erfiðast? Að náttúran fái að njóta vafans en lúti ekki skammtímaákvörðunum til dæmis virkjunarsinna.

Virðulegi forseti. Mig langar að vitna í hæstv. ráðherra, sem segir, með leyfi forseta:

„Á eitt varúðarsjónarmið í umhverfisvernd að ýta öllu öðru til hliðar, meira að segja hagkvæmum virkjunarkosti eins og Norðlingaöldu, sem er kannski sá virkjunarkostur sem hefur minnst umhverfisleg áhrif?“

Þetta sagði hæstv. ráðherra þegar hann var óbreyttur þingmaður. Maður hefur auðvitað áhyggjur af því að ástæða sé til að ætla að þetta sé það sem er undirliggjandi, að framkvæmdir ráði för en ekki náttúran. Ég get ekki annað en spurt hæstv. ráðherra hvort hann telji sig geta náð sátt við alla sem að málinu koma, hvort honum þykir mikilvægara að ná sátt við tiltekna aðila sem hann telur ekki hafa náðst sátt við og þá hverja. Ég óska líka eftir rökstuðningi ráðherrans fyrir því hvers vegna hann telur að sá tími frá því að hann tók við málinu og fram til gildistöku nægi ekki til að gera þær breytingar sem hann telur brýnastar.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég bara segja við þá sem finnst við tala hér of mikið um málið: (Forseti hringir.) Við erum að tala um risastórt mál sem snýr að framtíð okkar allra í þessu landi og ókominna kynslóða (Forseti hringir.) og þess vegna skiptir það máli.