143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart RÚV.

[15:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svar mitt er þetta: Á engan hátt er hægt að líta svo á að hér sé verið með óeðlilegum hætti að hafa afskipti af sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Staðan er einfaldlega sú sem fram hefur komið og kom skýrt fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan.

Ríkissjóður stefnir á þessu ári á rekstrargrunni í halla upp á 31 milljarð. Þetta er verulega mikið vandamál í okkar samfélagi. Það þýðir að alls staðar þarf að gæta ýtrasta aðhalds. Á Landspítalanum hefur á undanförnum árum verið sagt upp tugum ef ekki hundruðum einstaklinga til að mæta þeirri aðhaldskröfu sem þangað hefur verið beint.

Síðasta ríkisstjórn stóð fyrir því með fjárveitingum sínum að sagt var upp 50 manns á tveimur árum á Ríkisútvarpinu. Það var sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður átti sæti í sem hæstv. ráðherra. Um það var sagt í ársreikningi Ríkisútvarpsins frá 2010: „Þetta er afskræming á rekstrarformi RÚV og til þess fallið að skerða fjárhagslegt — og þar með ritstjórnarlegt — sjálfstæði félagsins gagnvart ríkjandi stjórnvöldum á hverjum tíma.“

Það var sá dómur sem féll hjá Ríkisútvarpinu um stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þingmaður átti sæti í. Ég tek ekki undir það. Ég tek ekki undir þá skoðun Ríkisútvarpsins á þessum tíma. Ég tel að þarna hafi verið nauðvörn, menn hafi verið að bregðast við mjög alvarlegri stöðu í ríkisfjármálum.

Sama staða er enn þá uppi. Við erum enn með þann vanda sem fyrrverandi ríkisstjórn var að fást við. Hann birtist í því að hallinn á rekstrargrunni á þessu ári stefnir í yfir 30 milljarða. Þess vegna á þessi gagnrýni, eins og sú sem kom fram af hálfu Ríkisútvarpsins á fyrrverandi ríkisstjórn, ekki heldur við núna.(Forseti hringir.) Það er sérkennilegt að hlusta á hv. þingmann fara með sömu rulluna og Ríkisútvarpið fór með um ríkisstjórn þá sem hv. þingmaður átti sæti í.