143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

fjármagn til skuldaleiðréttinga.

[10:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mundi ljúga ef ég segðist hafa skilið þetta svar og ég ætla ekki að ljúga.

Jú, peningar eru vissulega fastir inni í íslensku hagkerfi, það vitum við, og mig grunar að hæstv. forsætisráðherra eigi við að ríkisstjórn hans ætli á einhvern hátt að ná í hluta af þeim peningum en eftir stendur spurningin: Hvernig? Er það með skattlagningu eða einhverjum öðrum aðferðum? Það er ekki verið að semja við kröfuhafa, ekki hef ég heyrt af því. Mig grunar því að það verði gert með skattlagningu. Ef skattlagning verður þá eru það peningar sem koma inn í ríkissjóð. Því vil ég leggja áherslu á að þá þarf að ræða það hvernig þeim tekjum verður varið. Þá þarf allt að liggja undir, allt sviðið, og ef þeir peningar koma inn í ríkissjóð þá hefur það auðvitað áhrif á stöðu ríkissjóðs og verður pólitískt spursmál hvernig þeim peningum er varið.