143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

lánsveð.

[16:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er sérstaklega fjallað um lánsveðin í skýrslu sérfræðinganna. Þeir eru þar með ákveðið upplegg sem við eigum á endanum eftir að taka afstöðu til í þinginu. Mér sýnist vera skynsamlegt og ég geri ekki ráð fyrir öðru en því verði fylgt að verðtryggð fasteignaveðlán, sem tekin voru í nafni viðkomandi einstaklings vegna kaupa eða byggingar íbúðarhúsnæðis til eigin nota en tryggð með veði í fasteign í eigu annars, falli líka undir leiðréttinguna. Í þessu sambandi skiptir máli að lántaki hafi gert grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali. Hugsunin er að bregðast við þeim athugasemdum sem fram hafa komið vegna lánsveðanna, um að þau hafi orðið út undan.

Það hefur ekki reynst auðvelt að þróa leiðir til að taka sérstaklega á vanda lánsveðshópsins eins og hann er oft nefndur. Samkomulagið sem gert var fyrr á árinu við lífeyrissjóðina virtist ganga út á það að ríkið tæki á sig langstærsta hluta málsins. Ég verð að segja að mér fannst talsvert mikil óvissa felast í því. Það er kannski ekki hægt að eyða henni að fullu en það var talsvert mikil óvissa um hversu stór sú aðgerð yrði þegar upp væri staðið.

Í tillögum sérfræðingahópsins er gengið út frá því að lánsveðshópurinn eigi sama rétt og þeir sem eru með önnur lán.