143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

skipulag hreindýraveiða.

135. mál
[16:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans hvað þetta varðar og hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir hennar innlegg hér. Hún tekur undir það sem felst í fyrirspurn minni og í svörum ráðherra um að færa umsýsluna og stjórn hreindýraveiða í meira mæli austur í hendur heimamanna þar sem auðlindin er, ef svo má að orði komast.

Ég hef alltaf verið ákaflega mikill stuðningsmaður þess að einfalda regluverk og boðleiðir í hinu opinbera kerfi og tek því undir það sem sagt er af hæstv. ríkisstjórn hvað það varðar. Ég vona að það gangi sem fyrst, vegna þess að í okkar litla þjóðfélagi er flækjustigið allt of hátt og allt of margir koma að hlutunum. Ég get nefnt fiskeldið í þeim efnum. Við þekkjum það, ég og hæstv. ráðherra, sem sat í atvinnuveganefnd með mér á síðasta kjörtímabili, þegar við fórum yfir það dæmi, að það var ansi flókið og ekki skilvirkt.

Ég fagna þess vegna því sem hæstv. ráðherra sagði hvað þetta varðar og tek svar hans á þann veg að hann hafi fullan vilja til að vinna að þessu máli undir þeim formerkjum sem hann fór hér yfir. Ég þekki ráðherrann líka að góðu einu hvað það varðar að hann drífur í hlutunum. Ég held því að ekki þurfi að taka neitt voðalega langan tíma að setja þessa vinnu í gang á vegum ráðherra og á vegum ráðuneytisins og koma því til skila sem Austfirðingar hafa kallað eftir í fjölmörg ár.

Virðulegi forseti. Ég trúi því að ég þurfi ekki að spyrja að ári um hvernig gangi að framfylgja þeim loforðum og þeirri stefnu sem hæstv. ráðherra hefur sett fram, ég er ákaflega ánægður með það.