143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í síðasta þætti Orðbragðs, sem er frábær þáttur um íslenskt mál í Ríkisútvarpinu, sagði Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, að raunveruleg hætta væri á að íslenska yrði horfin eftir 100 ár. Eiríkur bendir á að tölvur séu nánast í öllum tækjum sem fólk notar dags daglega og þróunin sé sú að þessum tölvum sé í sífellt ríkari mæli stjórnað af tungumálinu. Þetta sé orðinn veruleikinn í hversdagslífinu og fólk og sérstaklega ungmenni séu farin að átta sig á því að móðurmálið dugar ekki við tilteknar kringumstæður. Það er áhyggjuefni.

Samkvæmt stórri skýrslu sem kom út í fyrra um stöðu 30 evrópskra tungumála, þar sem var athugað hvort þau byggju yfir hugbúnaði og gagnasöfnun sem gerir þeim kleift að tala tungumál og nota móðurmálið sitt í öllu því umhverfi, er íslenska flokkuð með tungumálum sem eru í hættu á stafrænum dauða sem svo er kallað. Hún er í næstneðsta sæti af málunum 30 og aðeins maltneska stendur verr að vígi.

Þetta er í raun og veru ákall um það sem Eiríkur Rögnvaldsson nefnir í þessu samhengi vitundarvakningu. Ekki er síður mikilvægt að við forgangsröðum bæði fjármagni og þekkingu í þágu varnarbaráttu fyrir íslenskt mál. Eitt af því sem verður að þróa er góð íslensk talgreining. Við eigum að krefjast þess að geta notað íslensku við öll tækifæri. Hér þarf þingheimur að leggjast á eitt um tímasetta og fjármagnaða áætlun til að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Ég mun leggja fram þingsályktunartillögu í þá veru og vænti þess að ná þverpólitískri samstöðu. Hér eru blikur á lofti um stöðu íslenskrar tungu (Forseti hringir.) sem er einn af þeim þáttum sem gera okkur að þjóð. Íslenskan þarf á umhyggju okkar (Forseti hringir.) og stuðningi að halda og ég vænti þess að þingheimur allur sé mér sammála um mikilvægi þess.