143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

leiðréttingar í fjáraukalögum til heilbrigðisstofnana.

[15:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, það er spurningin um svigrúmið. Við erum náttúrlega með þá stöðu uppi t.d. á Landspítalanum að áætlaður halli þar á árinu 2013 er einhvers staðar á bilinu 1.300–1.500 millj. kr. Það er af nægu að taka þegar við glímum við að koma þessu saman.

Ég vil undirstrika þann vilja minn að koma til móts við þær stærðir sem þarna er um að ræða. Ég bendi á það samkomulag sem hefur gilt milli fjármálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins um húsaleiguna og frestun á henni. Í mínum huga er ekki nema um tvennt að ræða. Annaðhvort verður leigan innheimt á árinu 2013 með fjárframlögum eða henni verður frestað til ársins 2014. Þannig skil ég það samkomulag sem gert var og hefur staðið allt frá árinu 2010 og það ber að virða.