143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þóttist muna eftir þeirri umræðu sem fram fór þegar þessir peningar, til að hafa upp á að hlaupa ef eitthvað kæmi fyrir í fjárlögunum, voru í fyrsta skipti teknir inn. Ég þarf svo sem ekki að hafa um það mörg orð en ég er mjög hlynnt þeirri aðferð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti svo ágætlega. Við erum sem betur fer í þessu eins og í öðru — af því að við erum nú alltaf að skammast yfir því að allt sé ómögulegt, þá er þetta smám saman að skána pínulítið. Við erum að færa okkur inn í þennan fjárlagaramma. En það tekur tíma að kenna gömlum hundi að sitja. Það mun taka tíma að venja pólitíkusa við að starfa innan ramma; og ekki bara pólitíkusa heldur þurfa þeir sem ráðstafa peningunum líka að venja sig við að halda sig innan rammans.

En ég held, hafandi starfað út um allt, að það skipti líka máli að þetta verði þannig í framtíðinni að ekki sé verið að setja fjárhæðir niður á einstaka liði heldur fái stofnanir ramma sem þær geta fært sig svolítið til innan, þ.e. hvernig þær ráðstafa peningunum því að ég held að það sé nú ekki alltaf best gert í ráðuneytum. Og þó að skoðanaskipti og samráð sé haft þar (Forseti hringir.) held ég að betra sé að þeir sem stjórna stofnunum hafi svolítið rúman ramma, þeir eða þær. En þá verða þau náttúrlega líka (Forseti hringir.) að vera alveg klár á því (Forseti hringir.) að þau verða að starfa innan rammans.

(Forseti (SilG): Forseti vill minna hv. þingmenn á að seinni ræðutími er ein mínúta.)