143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í minni hlutanum í fjárlaganefnd leggjum það til að Alþingi samþykki 240 millj. kr. framlag fyrir desemberuppbót fyrir atvinnuleitendur. Þetta mál hlýtur að vera hafið yfir pólitískar deilur og þras um það hverjum þetta og hitt var að kenna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við stöndum frammi fyrir því að ekki er gert ráð fyrir að atvinnuleitendur fái desemberuppbót. Hér hafa alþingismenn tækifæri til að taka af skarið, taka af allan vafa og gefa þeim sem eru sannarlega í erfiðri stöðu, atvinnulausu fólki, vissu og öryggi um að fá desemberuppbót og geti þá nýtt hana til að gera sér glaðan dag yfir hátíðarnar.