143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er ríkisstjórnin að farga enn einu framfaramálinu með því að leggja af fjárveitingar til græna hagkerfisins sem er vel að merkja stefnumörkun sem var unnin hér á síðasta kjörtímabili í þverpólitískri samvinnu allra flokka og gerð verkáætlun með samhljóða samþykki allra viðstaddra þingmanna.

Þarna hefur legið fjárheimild á þessu ári upp á 280 millj. kr. í forsætisráðuneytinu sem hefði verið hægt að nýta fyrir ríkisstjórn sem hefði raunverulega haft áhuga á fjárfestingu en ekki kyrrstöðu.

Hér er síðan búinn til nýr fjárlagaliður, nafnið Græna hagkerfið hengt á nýjan fjárlagalið um verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa. Allir fjármunirnir á þeim lið eiga að fara í minjaverkefni af ýmsum toga. Ég græt ekki (Forseti hringir.) að gert sé vel við þau verkefni, en það sýnir kaldhæðnina að menn skuli (Forseti hringir.) hengja merkimiða græns hagkerfis á það þegar þeir ákveða að stúta því.