143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

um fundarstjórn.

[20:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekkert óeðlilegt að við þurfum að vera hérna eitthvað fram eftir kvöldi, þau voru núna fyrst að streyma inn öll þau mál sem nauðsynlegt er að klára fyrir áramótin.

Ég vil hins vegar taka undir með þeim sem hér hafa talað að ég vona að fundurinn standi ekki lengur en svona upp undir miðnætti. Fyrir utan að mikilvægasta umræðan er fram undan, eins og komið hefur fram, þá eru gögnin sem fylgja henni ekki mjög árennileg, eins og ég hef sagt tvisvar eða þrisvar hér í ræðustól. Þess vegna þurfum við tíma og þurfum að vera svona sæmilega útsofin til að geta lesið þetta og púslað þessu öllu saman, því að allt kemur þetta svolítið hvert úr sinni áttinni.