143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er því miður þannig, það er verið að taka allt of mikið af sjúklingum, hlutdeild sjúklingsins „utan sjúkrahúss“, þ.e. án innlagnar, er að mínu mati allt of há og það er á því sem við þurfum að taka. En í staðinn fyrir að gera það finnst mér þetta bera vott um að af því að sá sem ekki er lagður inn borgar svo mikið ætli menn að hækka eða búa til nýtt gjald af þeim sem eru lagðir inn til að mæta því og jafna einhvern veginn þeirra stöðu. Ég vil frekar gera það á hinn veginn, (Gripið fram í.) þ.e. að við reynum að mæta þeim hópi sem greiðir innan heilbrigðisþjónustunnar í dag og gjöldin leggjast hvað þyngst á. Ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal erum saman í ágætisvinnu í svokallaðri greiðsluþátttökunefnd sem hann leiðir af miklu afli og ég vonast til þess (Gripið fram í.) að við náum einhverri lendingu þar (Forseti hringir.) sem gæti gagnast þessum hópi en í honum eru að mínu mati margir hverjir að greiða allt of mikið nú þegar.