143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var hluti af kjarasamningum 2008, ef ég man rétt. Það getur vel verið að gild rök fyrir séu því að menn séu ekki komnir með útfærslu á útgreiðslum úr þessum sjóði og því hafi hann safnað fjármunum, en það breytir því ekki að þetta var samningsatriði. Þannig að já, að mínu mati þurfa menn að taka þetta upp á viðeigandi vettvangi þar sem upphafleg ákvörðun um að gera þetta var tekin. Öðruvísi er þetta ekki hægt.

Ég náði ekki að nefna sjóðinn í ræðu minni hér áðan en ég hafði hugsað mér að kalla eftir viðbrögðum frá meiri hluta nefndarinnar um það hvort þetta hefði verið rætt við aðila vinnumarkaðarins, ekki síst ASÍ, og hver viðbrögð þeirra hefðu verið. Ég sit ekki í nefndinni þannig að ég veit það ekki. Það kemur ekkert fram um það í nefndarálitinu.