143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög létt, þetta er létt tillaga, að skera niður í ráðuneytum. Stjórnmálamaður sem gerir slíka tillögu getur verið nokkuð viss um að allir muni segja: Já, þarna er verið að skera niður á réttum stað, þarna er bara fjöldi fólks sem vinnur við að naga blýanta alla daga. Þetta er ímynd margra af stjórnsýslunni. Mér finnst nauðsynlegt að sú greining sem hv. þingmaður nefndi komi fram í fjárlaganefnd á milli umræðna því að í og með hefur stjórnsýslan þessa ímynd á sér.

Við verðum að átta okkur á því hve mörg erindi koma inn í einstök ráðuneyti sem krafa er gerð um lögum samkvæmt að sé sinnt og svarað. Það eru mörg þúsund erindi á hverju ári, og það eru bara erindi sem snúast um að veitt séu viðbrögð við þeim. Þá er eftir að horfa til stefnumótunarhlutverks ráðuneytanna, eftirlitshlutverks ráðuneytanna með því að stofnanir framfylgi fjárlögum, með því að stofnanir framfylgi stefnu og innleiði stefnu. Við getum rétt ímyndað okkur, það eru ærin verkefni. Þá þarf pólitíkin hreinlega að segja: Fínt, (Forseti hringir.) við ætlumst til þess að þið sleppið einhverju af þessum hlutum, að við slökum á kröfunum um að erindum sé svarað.

Hvar á að bera niður?