143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott ef maður fær einfaldar spurningar. Svarið er já, við eigum að ráðast í byggingu nýs Landspítala, það er ekkert flóknara en það. Ef við gerum það ekki erum við þar með að segja að við sættum okkur við það að heilbrigðisþjónusta á Íslandi verði annars flokks til frambúðar. Það er ekkert flóknara en það.

Við sem löggjafarsamkunda skuldum Landspítalanum það. Við skuldum Landspítalanum það að segja: Við ætlum að vera þingið og kjörtímabilið þar sem farið er af stað að byggja nýjan Landspítala og íslenska heilbrigðiskerfið er reist úr öskustónni. Ef við getum það ekki verður það of seint.