143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um að leggja meira fjármagn til styrktar innanlandsflugi upp á 75 millj. kr., einnig til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu, sem er stuðningur við lendingargjöld hjá Isavia og við innanlandsflugið. Einnig leggjum við til að greiðslur til Fjarskiptasjóðs séu 300 millj. kr., sem við teljum vera mjög brýnt til að hraða háhraðatengingu í landinu.

Allir þessir liðir eru skornir niður hjá núverandi ríkisstjórn. Það eru kaldar kveðjur til landsbyggðarinnar. Skorið er niður hjá núverandi ríkisstjórn um 75 millj. kr. við þær flugleiðir sem eru ríkisstyrktar og skorið er niður í Fjarskiptasjóði um 195 millj. kr. Við leggjum þess vegna til að þessir þrír liðir fái samtals 575 millj. kr. og styðjum landsbyggðina í verki.