143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Bara svo það sé upplýst þá er það ekkert óvænt að jólin komi í ár, það hefur verið vitað nokkuð lengi. Ég veit ekki hvort (Gripið fram í.) — nú ætla ég að fara á hála braut af því að ég fékk kall frá hv. þingmanni, vinkonu minni, Bjarkeyju Gunnarsdóttur, en það var stjórnmálamaður sem frestaði jólunum, hann er ekki í flokkagrúppu með sjálfstæðismönnum eða framsóknarmönnum en ég veit þó að hann hefur verið tengdur, eða meira hugmyndafræðilega, við aðra flokka á Íslandi, en ég ætla ekki að fara út á þá braut. Það hefur aldrei hvarflað að sjálfstæðismönnum eða framsóknarmönnum — nú tala ég fyrir hönd framsóknarmanna, en ég er alveg sannfærður um það, þó að ég viti nú almennt ekki hvað þeir hugsa, að við höfum aldrei farið þangað að ætla að fresta jólunum, [Hlátur í þingsal.] aldrei nokkurn tímann. Það má vera að einhver annar stjórnmálaflokkur á Íslandi hafi velt því fyrir sér en fyrir okkur hin var það aldrei spurning að jólin kæmu í ár, ekki nokkur einasta spurning.

Að öllu gamni slepptu kom það fram í nefndinni að þeir fjármunir sem hefði verið hægt að nota í desemberuppbótina voru notaðir í annað. Þeir voru notaðir í annað í sumar, þannig að það voru ekki óvænt útgjöld. Það var síðasta ríkisstjórn sem ákvað að nota þá fjármuni í annað. Það er bara eitthvað sem liggur fyrir. (Gripið fram í: Hvað annað?) (Gripið fram í: Í sumar?) (Gripið fram í: … kostaboð.) Virðulegi forseti. Þá var það kannski af því að vegir vinstri stjórnarinnar eru órannsakanlegir, þá var kannski eitthvað óvænt í því, (Gripið fram í.) en það má vera. Það er náttúrlega (Gripið fram í: Nú ertu kominn í vandræði …) — þá er allt orðið óvænt, virðulegur forseti. Hugsunin er sú … (Gripið fram í: … að forseti grípi inn í umræðuna.)

(Forseti (SJS): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Það sem við höfum verið gagnrýnd fyrir, til dæmis af Ríkisendurskoðun, er að áætlanir standist ekki. Nú var auðvitað gerð áætlun fyrir hvert ár, gerð var áætlun um þetta og menn vissu alveg að desember kæmi, jólin kæmu, menn gátu notað ákveðna fjármuni í það, en þeir notuðu þá í annað. Það er ekkert óvænt í því. Þetta er bara áætlanagerð sem gekk ekki eftir. Svo einfalt er það. Menn notuðu fjármunina í annað, síðasta vinstri stjórn, í staðinn fyrir að nota það í desemberuppbót. Þannig er það mál.

Síðan er hitt að það var aldrei deila um það hvort fjármunirnir sem fengust í uppbót á tíðnisviðinu færu í fjarskiptasjóð. Það lá alltaf fyrir, það var samkvæmt lögum. Það var aldrei gerð breytingartillaga um það. Gerð var breytingartillaga um að fjarskiptasjóður fengi heimild til þess að nýta þá fjármuni. Það var breytingartillaga meiri hlutans.

Þá komum við að þriðja þættinum, sem ég ætla að ræða, er varðar menntamálin. Það var meiri hlutinn sem vakti athygli á því máli. Meiri hlutinn setti það í sitt nefndarálit, ekki minni hlutinn. Minni hlutinn hér, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, lásu upp úr nefndaráliti meiri hlutans. Okkur í meiri hlutanum fannst rétt að vekja athygli á því. Hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar fannst það alveg stórfurðulegt að við skyldum gera það. Ég var spurður þráfaldlega út í það, úr því að ég væri að vekja athygli á þessu álitamáli hvort ég gæti þá stutt það, þetta væri þá eins og lagt var upp með í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég ætla ekki að fara í meting um þetta en ég tel, alveg sama í hvaða flokki við erum og hvaða ríkisstjórn er, að við eigum að vinna faglega. Við vorum að vekja athygli á þeim þætti.

Hv. stjórnarandstaða var með mjög ákveðna línu um að þetta gengi ekki. Það gengi ekki að setja fjármuni sem voru á liðum 2013 inn í fjáraukann með heimild til þess að nýta 2014. Það var alveg skýrt hjá stjórnarandstöðunni að henni fannst þetta ekki ganga upp. Við bentum á að þetta orkaði tvímælis, en það var alveg skýrt af hálfu stjórnarandstöðunnar að þetta gengi ekki upp.

Ég vil þess vegna vekja athygli á því að síðan kemur stjórnarandstaðan og fer fram á það að við gerum þetta í tilviki fjarskiptasjóðs, þ.e. fjármunir sem komu inn í fjarskiptasjóð og enginn deildi um, það lá alltaf fyrir — nú erum við að setja breytingartillögu, m.a. út af sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar, að nýta þá fjármuni ekki fyrr en 2014. Þannig að prinsippið sem menn lögðu upp með varðandi menntamálin erum við að brjóta varðandi fjarskiptalögin. (Gripið fram í.) Nei, prinsippið gengur. Það sem Ríkisendurskoðun fór yfir með okkur á fundinum var að það væri óeðlilegt að setja í fjáraukann eitthvað sem væri nýtt 2014. Engin deila var um það, virðulegi forseti, að peningarnir sem komu vegna tíðnisviðs fara í fjarskiptasjóðinn, um það er ekki deilt. En ég held að það hvarfli ekki að nokkrum manni að ætla að nýta fjármunina árið 2013, það er nú stuttur tími í það.

Síðan er líka hitt að við þurfum hvort heldur sem er — ef við ætlum að nýta þessa fjármuni, það skiptir engu máli, fjarskiptasjóður er bara eitt tékkhefti hjá ríkinu og við þurfum að greiða út af tékkheftinu inn á Farice. Þó að við segjum: Heyrðu, þessir peningar sem við setjum hér inn eiga að fara í eitthvað annað, þá þurfum við að setja meiri peninga í sameiginlega sjóði. Það er bara þannig. Það er út af Farice-samningnum af því að ekki er komið neitt gagnaver. Áætlun um Farice sem var lagt upp með frá 2012 gekk því miður ekki upp. Við erum í miklum vanda hvað það varðar.

Ég vildi því vekja athygli á þessu, virðulegi forseti. Þó að við þráttum um ýmislegt held ég að við séum sammála um að við viljum starfa í anda fjárreiðulaganna og laga hlutina. Það er vandmeðfarið og við þurfum alltaf að vera sjálfum okkur samkvæm. Við erum það ekki að fullu leyti hvað þetta varðar. Auðvitað eru oft grá svæði, það liggur alveg fyrir. En ég vona að við berum gæfu til þess að fara í rétta átt hvað þetta varðar.

En hvað sem öðru líður, þegar við veitum heimild fyrir útgreiðslu úr fjarskiptasjóði á tíðnisviðunum munum við ekki nýta það árið 2013.