143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[23:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þetta er það eitt að segja að ég fagna að sjálfsögðu málefnalegri umræðu um öll mál og það er ágætt að taka hana hvenær sem er. Í þessu tilfelli er náttúrlega meira undir en eingöngu málefnaleg umræða og það að vekja athygli á þessu máli og umfangi þess vegna þess að þingmaður Vinstri grænna hefur lagt fram breytingartillögu sem felur það í sér að fresta gildistökunni gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur, stærsta fyrirtækinu á þessum markaði. Í því felst auðvitað tillaga um að Orkuveita Reykjavíkur njóti ákveðinnar sérstöðu á þessum markaði áfram. Það virðist vera vilji Vinstri grænna að Orkuveita Reykjavíkur þurfi ekki að sitja við sama borð og önnur orkufyrirtæki í landinu þó að við séum á sama tíma sammála um að það þurfi miklu lengri tíma og miklu meiri vinnu til að fara yfir þær hugmyndir sem hér eru viðraðar af hv. þingmanni. Það er því miklu meira undir en málefnaleg umræða. Hér eru beinar tillögur um það að Orkuveita Reykjavíkur skuli njóta einhverrar sérstakrar undanþágu og þæginda umfram önnur orkufyrirtæki á markaði.