143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér finnst það ótrúleg meinbægni í garð þessa máls að meina hæstv. menntamálaráðherra að hafa heimild, sem að sjálfsögðu er bara heimild, til þess að halda áfram að skoða hvort þetta væri ásættanleg lausn, hugsanlega á grundvelli eitthvað breytts fyrirkomulags eða breytts samnings. Menn hafa leitað lengi og það hefur lítið gerst. Svo þegar loks kemur upp hugmynd sem virðist vera áhugaverð og fagfólk metur mjög freistandi kost fyrir bæði ríki og borg — nei, þá kemur upp þessi ótrúlega meinbægni og menn hafa hér stór orð og úthúða öllu í kringum þetta mál.

Þegar spurt er hvað eigi að gera í staðinn eru engin svör. Hæstv. menntamálaráðherra er nú farinn, hann var hér áðan. (Gripið fram í: Nei, hann er hérna.) — Já, er hann þarna á flakki um salinn? Ég hefði gaman af að heyra í hæstv. menntamálaráðherra. Er hann sáttur við þessar trakteringar? Auðvitað er þetta ekkert annað en vantraust á menntamálaráðherrann. (Gripið fram í: Ha?) Meiri hluti fjárlaganefndar treystir ekki menntamálaráðherra til að hafa þessa heimild [Háreysti í þingsal.] þannig að [Frammíköll í þingsal.] — hvers vegna í ósköpunum má ekki halda áfram að skoða þetta mál? [Frammíköll í þingsal.] Er það boðlegt að ríkisstjórnin svari engu til um það hvað eigi þá að gera í staðinn. Engu. Það er þá allur metnaðurinn sem menn hafa fyrir hönd þessa máls, sem vel að merkja, herra forseti, er búið að vera okkur öllum til skammar lengi, ekki bara núverandi ríkisstjórn. (VigH: Þar erum við sammála.)