143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[13:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er komin til afgreiðslu tillaga til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, tillaga sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir var talsmaður fyrir. Ég sit í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og styð tillöguna heils hugar þótt ég hafi ekki haft tækifæri til að vera á nefndarfundinum þar sem þetta var tekið úr nefnd.

Ég vildi vekja sérstaka athygli á því hversu mikilvæg tillagan er einmitt núna en fyrr í dag var verið að lækka framlög til Fæðingarorlofssjóðs um helming og núverandi ríkisstjórn er að hverfa frá áformum um að lengja fæðingarorlofið, sem mér finnst mjög mikið miður. Núna þegar við erum að fara út úr þessari kreppu allri og bankahruninu og afleiðingum þess hefði verið mikilvægt að fylgja þeirri stefnumótun sem komin var um að stíga næstu skref hvað varðar fæðingarorlofið, fylgja þeim áformum eftir. Það hefði verið auðvelt ef menn hefðu látið Fæðingarorlofssjóðinn hafa sínar tekjur þannig að hann gæti staðið undir þessu á næstu árum. Þannig var það hugsað. Það hefði ekki komið til sérstakra skattgreiðslna frá almenningi vegna þess heldur hefðum við eingöngu þurft að tryggja að stoðir sjóðsins héldu.

Ég vildi vekja athygli á þessu um leið og ég fagna tillögunni og því að hér verður í samráði við sveitarfélögin, fyrst og fremst þau því að auðvitað verðum að leggja áherslu á að þau reka leikskólann, farið yfir hvernig er hægt að brúa bilið sem er á milli fæðingarorlofs og þess að börn komist inn á leikskóla.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns og talsmanns í þessu máli, Elsu Láru Arnardóttur, hvað varðar fæðingarorlofið og þær breytingar sem ríkisstjórnin er að gera (Forseti hringir.) á málinu.