143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:37]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur margítrekað komið fram að reynt verði að semja við kröfuhafana með einum eða öðrum hætti. Eins og flestir vita tekur það tíma.

Ég er ósammála hv. þingmanni um margt eins og ég kom inn á áðan og verð eiginlega að segja að þegar hv. þingmaður fullyrðir að Vinstri grænir vilji jafna möguleika allra sem skulda þá skil ég ekki af hverju þeir styðja ekki þessar tillögur. Förum aðeins yfir sviðið. Hvað gerðist hér þegar áfallið dundi yfir? Jú, byrjað var á því að bjarga öllum sem áttu innstæður í banka. Var það sanngjarnt? Ég er ekki viss um það, en það var gert með neyðarlögum. Þá var sko ríka fólkinu bjargað. Hvað gerðist svo? Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fór í það að greiða öllum sem þeim sem áttu í peningamarkaðssjóðum. Þannig að í staðinn fyrir að þeir mundu tapa um 80% af kröfum sínum þá töpuðu þeir í rauninni ekki nema 20%. Þeim var bjargað að stærstum hluta. (LRM: … gamla fólkið líka?)

Gengistryggðu lánin. Við börðumst fyrir því fyrir daufum eyrum í tíð síðustu ríkisstjórnar að þau yrðu lagfærð. Sagt var nákvæmlega eins og hv. þingmaður kom inn á áðan: Ja, það eru bara of mikil áhrif á ríkissjóð og gengið mun hækka og þetta fer allt til … Já. Hvað gerist? Hæstiréttur kemur og bjargar. Hvað gerist? Allir ánægðir og jákvæðir, ekki satt? Nú á að bjarga þeim sem eru með verðtryggðu lánin, reyna að laga þennan forsendubrest. En hv. þingmaður heldur hér langa ræðu, um hálftíma langa ræðu, þar sem hún finnur aðgerðunum allt (Forseti hringir.) til foráttu. Hvernig væri að vera svolítið jákvæð og styðja þó það sem vel er gert í stað þess (Forseti hringir.) að vera alltaf fúl á móti?