143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

[15:13]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið án þess að hafa ætlað það í upphafi. Ég sat þennan fund í morgun, í fjarveru hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, og það sem upp úr stendur er vinnulagið, það er fljótfærnin sem einkenndi vinnu við fjárlögin, sem þetta jú snertir, og það sem því miður hefur komið fram í fjölmiðlum að formaður nefndarinnar hefur orðið margsaga um það hvernig þetta 50 milljarða viðmið varð til. Það getur ekki lofað góðu og er hreint ekki gott og er auðvitað til þess fallið að rýra trú okkar á að verið sé að vinna málin af vandvirkni.

Í fréttum í erlendum fjölmiðlum undanfarna mánuði hefur verið rætt um að ríkisstjórnin teljist ekki vera að gera neitt sérstaklega mikið, slíkar fréttir hafa verið að birtast margsinnis og íslensk stjórnvöld hafa lítið gert til að bregðast við þeim fréttum. Í frétt Reuters á föstudaginn kemur fram að kjör íslenska ríkisins á lánamarkaði hafi versnað til mikilla muna en á sama tíma fara kjörin batnandi hjá öðrum ríkjum sem hafa verið að glíma við kreppu.

Í þessari frétt er ástæða þróunarinnar rakin til þess að ný ríkisstjórn tók við völdum fyrir átta mánuðum, þ.e. að nýja ríkisstjórnin er talin eiga einhvern hlut að máli. Mig langar til að spyrja hvað hæstv. forsætisráðherra finnst um þær fréttir. Skaðar framganga ríkisstjórnarinnar íslenska hagsmuni eða hvað telur forsætisráðherra að þurfi að gera til að bæta kjör landsins?