143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:22]
Horfa

Oddgeir Ágúst Ottesen (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ánægjulegar umræður. Ég tel að við þurfum að taka þessar tillögur alvarlega. Ísland ásamt Svíþjóð er með lökustu frammistöðu allra Norðurlandanna. Við erum í hópi þeirra þjóða þar sem frammistaðan hefur versnað. Af því að umræða hefur verið um hvað PISA er raunverulega að kanna ætla ég að lesa upp, með leyfi forseta, skilgreiningar á því sem verið er að prófa í stærðfræði:

„Geta einstaklings til þess að setja fram, beita og túlka stærðfræði í margs konar samhengi. Það felur í sér að álykta stærðfræðilega og nota stærðfræðihugtök, aðferðir, staðreyndir og tæki til að lýsa, útskýra og spá fyrir um fyrirbæri. Það auðveldar einstaklingum að veita athygli hvaða hlutverki stærðfræði gegnir í heiminum ásamt því að fella dóma og taka ákvarðanir byggðar á traustum grunni eins og uppbyggilegir, ábyrgir og hugsandi borgarar þurfa að gera.“

Þetta eru alls ekkert úreltir þættir heldur mjög mikilvægir þættir sem við þurfum að hlúa að og það að færni í þeim þáttum sé að versna er áhyggjuefni. Eins og fram hefur komið hefur piltum farið verulega aftur í bæði lesskilningi og stærðfræðilæsi og Ísland er í hópi fimm landa þar sem stelpur standa sig betur en strákar í stærðfræði. Hin löndin eru Jórdan, Katar, Taíland og Malasía, sem ég veit svo sem ekki hvað eiga sameiginlegt annað en þetta.

Þótt munur sé milli stráka og stelpna og þótt munur sé milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar í öllum greinum er samt meiri jöfnuður á Íslandi en annars staðar. Munur á milli skóla er hvergi minni en hér þannig að við þurfum ekki að hugsa það sem vandamál sem einskorðast við stráka eða vandamál sem einskorðast við landsbyggðina. Vissulega er þó áhyggjuefni að munurinn á milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar er að aukast.

Við verðum að vera sammála um að grípa þurfi til einhverra aðgerða og við þurfum að fara yfir þetta af yfirvegun og mynda áætlun um hvernig við getum brugðist við.

Ég man að þegar ég var í gagnfræðaskóla skoðaði ég bækur sem móðir mín notaði þegar hún var í grunnskóla. Þar var meira af orðadæmum en í kennslubókinni minni. Það sem er erfitt við stærðfræði er ekki að setja inn einhverja formúlu heldur að taka upplýsingar úr texta, setja vandamálið upp og leysa það. Það voru þannig dæmi sem voru í PISA-könnuninni. Ég tók hluta af PISA-könnuninni eða sýnidæmi sem ég fann á netinu. Það voru tíu dæmi og það vakti athygli mína að í þeim fyrstu sjö var í raun og veru verið að prófa svipaða hluti, samhengi hraða, tíma og vegalengdar þar sem menn áttu að taka upplýsingar úr texta, setja vandamálið upp og leysa það. Ég hugsaði mér: Ef ég hefði vitað hvað ætti að prófa í þessari könnun hefði ég getað þjálfað nemendur til að ná betri árangri. (Forseti hringir.) Ég held að við getum bætt okkur töluvert án mikilla erfiðleika. Við erum ekki miklir eftirbátar Norðurlandanna en við getum brugðist við könnuninni, (Forseti hringir.) notað hana sem mælistiku og gert betur í framtíðinni.