143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[16:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Ég vil einnig þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að vekja máls á þessu þarfa málefni. Mér finnst umræðan hafa verið góð og gagnleg í dag og ég heyri að við erum að mestu leyti á sama máli og sammála um það að svört atvinnustarfsemi sé meinsemd í íslensku samfélagi.

Á hverju einasta ári veltir svarta hagkerfið milljörðum króna, krónum sem hægt væri að nota til að efla heilbrigðiskerfið okkar, skólana, byggja upp samgöngur o.s.frv. Samkvæmt mati Samtaka iðnaðarins mætti auka skatttekjur ríkisins og þar með auka fjárveitingar til almannaþjónustu um 40 milljarða kr. á ári með því að útrýma svartri atvinnustarfsemi. Þetta eru miklir peningar.

Hvers vegna leyfir fólk sér að þiggja svört laun og greiða fyrir svarta vinnu? Líklega vegna þess að hvatinn til að gera það er til staðar. Fólk kýs að líta fram hjá þeirri samfélagslegu ábyrgð sem það ber. En hvernig getum við bætt kerfið, þ.e. búið til jákvæða hvata og dregið úr neikvæðum hvötum? Frítekjumark námsmanna er til dæmis mjög lágt eða 750 þús. kr. Þess vegna freistast sumir námsmenn til að þiggja svarta vinnu til að sjá sér farborða. Það er því umhugsunarvert hvort við ættum ekki að hækka frítekjumörk almennt, að minnsta kosti samræma þau á milli ólíkra hópa þannig að þau séu í samræmi við skilgreinda framfærsluþörf einstaklinga en svo er því miður ekki nú.

Hátt tryggingagjald ýtir undir að atvinnurekendur greiði starfsfólki svört laun. Því er það skref í rétta átt að lækka tryggingagjaldið eins og núverandi ríkisstjórn gerði um síðustu áramót. Stefnt er að frekari lækkun tryggingagjalds.

Ég sé að ég er að renna út á tíma en ég ætlaði að nefna verkefnið Allir vinna sem hefur gengið mjög vel og er gott dæmi um jákvæða hvata. Núverandi ríkisstjórn ákvað að halda því átaki áfram til 31. desember 2014 (Forseti hringir.) og ég er mjög ánægð með það.