143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki hægt að ræða þessi mál án þess að koma inn á stöðu íslensku krónunnar og hlut hennar í vöruverði á Íslandi og sveiflukenndri verðlagningu. Rannsókn rannsóknastofnunar verslunarinnar frá árinu 2011 sýnir að verð breytist miklu meira við gengisfall en þegar gengið styrkist, þ.e. við fáum hækkunina miklu fyrr en lækkunina. Það eitt og sér tel ég mjög alvarlegt og sérstakt athugunarefni fyrir okkur.

Að öðru leyti finnst mér við ekki geta rætt verðlag hér á landi án þess að ræða krónuna. Þegar hæstv. ráðherra nefndi áðan að Hagstofan hefði sýnt fram á að matvöruverð væri orðið hagstætt hér á landi í samanburði við önnur lönd er það líklega vegna gengisfalls krónunnar, ekki satt? Við sem búum á Íslandi finnum það, hvert og eitt okkar, hvað hefur gerst hér eftir hrun, eftir fall krónunnar. Öll matvara hefur hækkað gríðarlega og aðföng fyrir þá sem eru í framleiðslu o.s.frv. þannig að ég held að hlutfallslega hafi krónan haft mjög mikil áhrif á kostnað við innkaup okkar á þeim nauðsynjum sem versla þarf.

Gengissveiflur íslensku krónunnar hafa sögulega verið mjög miklar og verðstöðugleiki hér hefur verið miklu minni en annars staðar. Þetta kemur líka fram í rannsókninni sem ég nefndi áðan. Við erum með gjaldmiðil sem hefur með mjög fáum undantekningum verið í miklu falli og verður sífellt verðminni. Þetta er bara staðreynd sem kemur fram í lífskjörum og verðinu (Forseti hringir.) hér á landi. Þetta er nokkuð sem ég vil að þingið fari (Forseti hringir.) að taka alvarlega, hvað sem við erum að ræða, (Forseti hringir.) húsnæðismál, málefni heimilanna, (Forseti hringir.) lán heimilanna, matvöruverð og verðlag almennt (Forseti hringir.) hér á landi til að ræða (Forseti hringir.) gjaldmiðil fyrir alvöru sem er ekki hengingaról um (Forseti hringir.) háls heimilanna í landinu.