143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, fyrir mjög kjarnyrt ágrip um það knýjandi málefni sem framhaldsskólinn er og jafnframt hæstv. ráðherra, Illuga Gunnarssyni, fyrir viðbrögð hans. Ég vil á þessum stutta tíma helst draga saman orð þeirra þar sem ég get tekið undir að skóli er samfélag sem snertir okkur öll. Við erum alveg sammála um að við þurfum að huga vel að málefnum framhaldsskólanna í ljósi undanfarinna ára þar sem þrengingar og niðurskurður hafa verið með þvílíku sniði að komið er að sársaukamörkum. Kjör kennara blandast ávallt inn í umræðuna og svo hefur brottfall nemenda á þessu skólastigi sannarlega verið áhyggjuefni.

Þetta blandast rekstri þar sem við erum að tala um 20 milljarða sem fara í framhaldsskólana og þess vegna verður umræðan vandasöm og snúin. Í mínum huga er tími til að bregðast við og tækifæri til að snúa vörn í sókn í málefnum framhaldsskólans. Ég hvet og fagna í raun og veru því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að hugsa frekar vítt en þröngt þegar kemur að því að kalla til aðila að þessu verkefni. Hins vegar þegar kemur að tíma nemenda verðum við að skoða tölfræðilegar staðreyndir, eins og þær sem snúa að alþjóðlegum samanburði þar sem það er staðreynd að nemendur okkar eru lengur í framhaldsskóla en gengur og gerist. (Forseti hringir.) Viljum við bregðast við því?