143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég tek undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, það eru peningar sem skortir, ekki heimildir. Þar hefur hv. þingmanni misheyrst, ég sagði ekki að það skorti heimild heldur að það skorti fjármagn. Þetta er vilji umboðsmanns Alþingis og þetta eru þær áherslur sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vill einnig viðhafa í starfi embættisins. Ég er sammála hv. þingmanni um að embætti umboðsmanns Alþingis sé einn af hornsteinum réttarríkisins. Hann er einn af hornsteinum í fyrirkomulagi sem við höfum komið á fót til að tryggja réttarstöðu almennings, réttarstöðu einstaklingsins í samfélaginu. Það er líka umhugsunarvert að umboðsmaður Alþingis byggir ekki vald sitt á möguleikum til lögþvingunar eða að beita viðurlögum, hann byggir það á virðingu okkar fyrir embættinu. Ég hygg að það sé þannig og það kemur fram í því hvernig brugðist er við erindum frá umboðsmanni Alþingis að hann hefur áskapað sér þessa virðingu með verkum sínum. Og það er vel.