143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég er algjörlega ósammála afstöðu Amnesty International í þessu máli og ég er oft ósammála Amnesty International þegar komið hefur t.d. að mannréttindabrotum hérlendis, ég hef aldrei falið það.

Það sem mér finnst svolítið merkilegt er að lítið er talað um mannréttindabrot Kínverja t.d. í Afríku. Þar er hrikalega illa farið með verkafólk. Það skiptir miklu máli hvar mann ber niður í Kína varðandi það að meta hvort ástandið sé betra núna eða fyrir 25 árum síðan. Þetta er stórt og mikið land. Ég fullyrði að ástandið í sumum fylkjum sé verra nú ef eitthvað er hvað mannréttindabrot varðar.

Ef við viljum sýna þeim í verki að við þorum að standa með sjálfum okkur og berjast gegn mannréttindabrotum þar í landi skora ég á hæstv. utanríkisráðherra að sýna það í verki og beita sér fyrir því að ég fái að halda ræðu fyrir kínverska ráðamenn um málefni Tíbets.