143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hafa sannarlega verið áhugaverðar umræður hér. Ég er að hugsa um að skrá mig í klúbbinn gagnrýna hugsun á þinginu. Mér finnst eiginlega langmikilvægast að við séum ævinlega og alltaf gagnrýnin í hugsun við vinnu þeirra verkefna sem við fáumst við hverju sinni.

Mér fannst heldur ósmekklegt áðan hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að óska ekki eftir orðastað við þingmann sem hann beindi orðum sínum eingöngu að. Ég tel heppilegra að það sé gert þegar við erum að ræða málin ef við óskum þess sérstaklega að ræða eitthvað sem beinist að tilteknum þingmanni, eins og var áðan. Samkvæmt þingsköpum á ekki að beina orðum sínum, hélt ég, beint að þingmönnum.

Mig langar líka að taka undir það sem kom fram varðandi skipun í RÚV. Ég vona svo sannarlega að Framsókn falli frá þeirri ætlan sinni að fjölga aftur í stjórn RÚV á kostnað Pírata. Það er þeirra skömm ef þeir gera það.

Hæstv. forseti. Mig langar líka að taka undir það sem kom fram áðan um sjónvarpsviðtal í gær þar sem Guðrún Johnsen lektor var í viðtali um fjármálin hér fyrir og eftir hrun og fór yfir þetta. Ég hvet alla þingmenn sem hafa ekki hlustað á viðtalið til að hlusta. Ég held að það sé okkur öllum hollt, hvar í flokki sem við stöndum, að hlusta á hvernig hún fer yfir málið. Hún tilheyrir engum stjórnmálaflokki, held ég, það hefur að minnsta kosti ekki komið fram, og viðtalið var mjög áhugavert. Hún segir (Forseti hringir.) svo sannarlega það sem hefur margoft verið sagt og margoft verið varað við, að hægt hefði verið að bregðast við því ástandi sem skapaðist hér.