143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það hverjir eiga að vera þarna og að tveir skuli vera skipaðir frá lagadeild Háskóla Íslands og tveir að tillögu Lögmannafélagsins o.s.frv. — þegar lagaskrifstofa er stofnuð á þar náttúrlega að vera hæfasta fólkið og ef hæfasta fólkið er ekki sótt þangað, þá veit ég ekki hvert. En hér eru fleiri háskólar á Íslandi sem kenna lögfræði þannig að það má alveg hugsa þetta á annan hátt.

Það sem ég er að fara í frumvarpinu, að lagaskrifstofa skuli vera Stjórnarráðinu líka til ráðgjafar, þá er það svo að annars staðar á Norðurlöndunum leggur ríkisstjórn ekki fram lagafrumvarp nema það hafi farið í gegnum lagaskrifstofu og lagaskrifstofa hafi gefið grænt ljós á það að frumvarpið standist stjórnarskrá, alþjóðasamninga og þau skilyrði sem talin eru upp í frumvarpinu. Þannig á það að vera. Því miður, þó að lagaskrifstofan hafi verið stofnuð í forsætisráðuneytinu 2010 hefur lagasetningin ekki batnað, (Forseti hringir.) samanber Árna Páls-lögin.