143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég verð að segja að mér finnst ömurlegt að taka hér þátt í því árið 2014 að kjósa eftir pólitískum línum í stjórn ríkisútvarps allra landsmanna. Það er vissulega í boði Illuga Jökulssonar — fyrirgefið, Gunnarssonar. Ég biðst afsökunar á því að hafa nefnt nafn góðs og gilds menningarmanns í staðinn fyrir nafn Illuga Gunnarssonar, hæstv. menntamálaráðherra. Það er í hans boði að við stöndum hér og gerum þetta og það er ömurlegt. Það er enn þá ömurlegra að meiri hlutinn hér skuli hugsanlega ætla sér undir gunnfána hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarssonar að gera þessa atlögu að heimspekingnum, rithöfundinum og menningarmanninum Pétri Gunnarssyni.

Hér var áðan hvatt til þess að menn stæðu sína plikt. Það hefur verið sagt áður. Í orrustunni við Trafalgar sendi Nelson flotaforingi út þau boð að nú skyldu allir gera skyldu sína. (Forseti hringir.) Orrustan vannst en aðmírállinn féll.