143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þingmanns sem er brenndur af ástandinu hér á síðasta kjörtímabili þar sem á hverju ári var horft upp á ríkisstjórnina koma með stóran hluta mála sinna allt of seint og þurfa að fá sérstakar undanþágur fyrir jafnvel í einhverjum tilvikum meiri hluta sinna mála. Þetta hefur þá haft þau áhrif á hv. þingmann og vonandi fleiri að þeir huga vel að skipulagi þingstarfa og því að mál gangi hér hratt og vel fyrir sig.

Hæstv. forseti þingsins hefur minnt okkur á þetta líka og ágætt að fá þessa áminningu frá hv. þingmanni til viðbótar.

Hvað varðar meginspurningu hv. þingmanns, um hvað sé að frétta af málum ríkisstjórnarinnar, þá er allt gott að frétta af þeim og þau eru, mörg hver, þegar til vinnslu í þinginu og önnur á leiðinni, jafnt og þétt. En það er líka rétt sem hv. þingmaður gat um að mörg góð þingmannamál hafa verið lögð fram sem ástæða er til að nota tímann til að vinna í samhliða málum ríkisstjórnarinnar.