143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

uppbygging hafnarmannvirkja á Bíldudal.

[15:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að bera upp fyrirspurn til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og inna hann eftir stöðu mála í uppbyggingu innviða hafnarmannvirkja á Bíldudal vegna undirbúningsframkvæmda við laxeldisfyrirtæki sem þar er að byggja upp, Arnarlax.

Sveitarfélagið Vesturbyggð hefur sent erindi til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar sem óskað var stuðnings frá ríkinu til uppbyggingar á iðnaðarsvæði, lengingu á viðlegukanti og ýmissa samgöngubóta. Í þeirri vinnu sem fylgdi í kjölfarið varð niðurstaðan sú að forgangsraða viðfangsefnum þannig að til að byrja með yrði eingöngu fjallað um fyrsta atriðið, þ.e. iðnaðarsvæðið. Síðan þá hafa fulltrúar Vesturbyggðar unnið með fulltrúum siglingasviðs Vegagerðar ríkisins, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og innanríkisráðuneytis að nánari útfærslu á þessu verkefni.

Ástæðan fyrir erindi sveitarfélagsins er sú að fiskeldisfyrirtækið Arnarlax ehf. hefur óskað eftir 20 þús. fermetra iðnaðarlóð og athafnasvæði fyrir laxasláturhús og aðstöðu til viðgerða og samsetningu á flotkvíum. Gert er ráð fyrir fullnaðarvinnslu á laxi og laxaafurðum og til viðbótar megi koma fyrir á lóðinni fyrirtæki sem hyggst vinna úr slógi og afskurði úr vinnslunni, fiskiolíu og próteini. Allar þessar hugmyndir, það sem búið er að vinna með heimamönnum, eru auðvitað mjög merkilegar og geta skapað 150 störf ef allt gengur eftir.

Nú vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvar þetta mál er statt og hvort heimamenn mega eiga von á því að fá stuðning við þetta brýna verkefni sem mikill akkur yrði í fyrir þessa veiku byggð.