143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hægt að mála skrattann mjög svörtum litum á vegginn ef maður er drátthagur í orðum eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Í reynd féllst hv. þm. Ögmundur Jónasson á niðurstöðu míns máls. Það sem vakir fyrir hv. þingmanni er fyrst og fremst að framkvæma í verki andstöðu sína gegn því að þessi tiltekni kínverski auðmaður kaupi Grímsstaði á Fjöllum. Það mál vitum við að er í uppnámi og hefur vakið harða mótstöðu víða, meðal annars hjá þeim sem búa norðanlands. Ég held að það sé með engu móti hægt að draga samasemmerki á milli þess sem þar kom fram og hins sem hv. þingmaður kallar möguleika á því að innan einhvers tíma, hugsanlega 500 ára, verði búið að kaupa upp allt Ísland. Það er fjarri lagi.

Ég held að menn verði að fara með mikilli gát í þessum málum. Ég verð þó að segja að ég gat tekið undir margt í máli hv. þingmanns, sérstaklega er ég honum sammála um jarðir og núverandi lög sem gera að verkum að sá sem á land á allar auðlindir í jörðu inn að miðpunkti jarðar. Við erum algerlega sammála um að þetta er óhæfa, þetta er rangt og það hefði verið ákaflega gott ef Alþingi hefði borið gæfu til að breyta því á sínum tíma eins og við börðumst fyrir.

Ég er einnig algerlega sammála honum um að við þurfum að gjalda varhuga við þeim sem beinlínis eru að reyna að kaupa upp auðlindir hér eins og vatnið okkar. En hingað til höfum við borið gæfu til að koma í veg fyrir það.

Ég spyr hv. þingmann: Er það rangminni hjá mér líka að í dag þurfi útlendir menn sem vilja kaupa land hér á Íslandi samþykki dómsmálaráðherra, sem nú gegnir heitinu innanríkisráðherra, til að það gangi eftir? Þannig var það að minnsta kosti þegar ég sat með þessum ágæta framsögumanni og hv. þm., Ögmundi Jónassyni, í ríkisstjórn, þá var það hann sem fór með þetta vald og það var hann sem þurfti að veita sitt samþykki.