143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Daginn er farið að lengja og sólin fer hækkandi á lofti. Það er kannski ekki svo að vorið fylli loftið. Alla vega er það svo hér fyrir utan Alþingishúsið að Tjörnin er frosin, kannski ekki botnfrosin en það á þó við um hin grynnri vötn eins og til dæmis í Stjórnarráði Íslands. Þar er ekki mikið að gerast. Nema eitt.

Það eina sem þessi ríkisstjórn virðist hafa uppburði í sér til að gera þessa dagana er að reka fólk. Einhver svívirðilegasta ákvörðun sem tekin hefur verið í langan tíma á Alþingi, eftir allan niðurskurðinn sem kynntur var, var ákvörðun um að skera niður holt og bolt 5% í útgjöldum til Stjórnarráðsins. Hvað þýddi þetta? Það þýddi að það átti að reka fólk, það átti að rýra kjör fólks og þetta hefur verið gert. Stórir hópar hafa orðið fyrir kjaraskerðingu þvert á lög, þvert á samninga og þvert á allar hefðir. Hefur þetta verið málefnalegt? Nei. Menn hafa verið leiddir hver á fætur öðrum til aftöku, liggur mér við að segja, í efnahagslegum skilningi. Það skiptir máli fyrir fólk þegar það missir vinnu sína og það skiptir máli þegar kjörin eru rýrð og það er tekið niður í launum um tugi prósenta, það skiptir máli. Og þetta er gert algerlega ómálefnalega eftir gömlu reglustrikuaðferðinni sem þarna er beitt. En ég sagði að það væri frosið.

Ég vil taka undir með formanni VG í upphafi þessarar umræðu, sem hafði áhyggjur af því að mikilvæg mál væru ekki komin á vinnsluborð Alþingis frá ríkisstjórninni. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti sagði að þá færi að sneyðast um afgreiðslu mála. (Forseti hringir.) En eru það ekki einhver mál sem verður að afgreiða? (Forseti hringir.) Er ekki ráð að stjórn þingsins taki þá upp umræðu (Forseti hringir.) og viðræður við ríkisstjórnina (Forseti hringir.) um að láta hendur standa (Forseti hringir.) fram úr ermum?