143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

heilbrigðisþjónusta og sjúklingagjöld.

[15:53]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda þessa þörfu umræðu. Vitað er að kostnaðarhluti sjúklinga í heilbrigðisþjónustu hefur aukist til muna undanfarin ár og er í raun löngu komið að þolmörkum í þeim efnum. Aukinn kostnaður sjúklinga eykur alltaf frestun og niðurfellingu þjónustunnar þegar á heildina er litið. Þótt ekki séu allar heimsóknir til lækna jafn brýnar breytir það því ekki að hækkun sjúklingagjalda eykur hættu á að sjúklingar ýti vanda sínum á undan sér og leiti loks til heilbrigðisþjónustunnar þegar vandinn er orðinn stærri og veikindin alvarlegri.

Því fylgir síðan aukinn kostnaður, bæði fyrir hið opinbera og sjúklinginn, sem þó er erfitt að meta í heild.

Í nýrri könnun sem birt var á vordögum kemur í ljós að þeim sem fresta því eða sleppa alfarið að fara til læknis hefur fjölgað verulega frá því fyrir hrun. Það er áhyggjuefni vegna þess að fresti fólk ferð til læknis getur vandinn orðið verri þegar fólkið kemur loksins inn í heilbrigðisþjónustuna og þarf þá dýrari úrræði.

Vaxandi kostnaður virðist eiga stærstan þátt í þeirri þróun. Í því samhengi má minna á mikilvægi þess að efla heilsugæsluna þar sem þjónustan er nær notendum í flestum tilvikum. Þar eru tækifæri til að grípa inn í ferli á byrjunarstigi og beita forvörnum, t.d. í geðheilbrigðismálum sem eru vaxandi vandamál í samfélagi okkar.

Það er orðið afar aðkallandi að vinda ofan af þessari þróun og því ánægjulegt að nú er áfram unnið að því að koma á nýju fyrirkomulagi sem á að einfalda kerfið og gera það réttlátara. Þar verður sérstaklega hugað að þeim sem eru langveikir og þeim sem þurfa að nota heilbrigðiskerfið oft. Hlutverk nefndarinnar er að kanna hvort og þá hvernig hægt er að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðsluafsláttarfyrirkomulag. Þátttaka borgarans í heilbrigðiskostnaði verður þannig takmörkuð hvort sem kostnaðurinn fellur utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans er fyrir heilbrigðisþjónustu.

Fagnaðarefni er að (Forseti hringir.) góður gangur er í störfum nefndarinnar og bundnar eru vonir við að hægt verði að afgreiða lagabreytingar í vor þannig að kerfið geti tekið gildi næsta vetur.