143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skipulagsbreytingar í framhaldsskólakerfinu.

[14:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það má ljóst vera að ég hyggst ganga lengra fram en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum hvað varðar námstímann í framhaldsskólakerfinu. Það má nokkuð ljóst vera þegar við berum okkur saman við önnur lönd, eins og ég hef ítrekað bent á, að við erum ein þjóða með námstíma sem er 14 ár til undirbúnings undir háskólanám meðan allar þjóðir eru með annaðhvort 13 eða 12. Já, ég tel nauðsynlegt að það verði stigið lengra fram hvað þetta varðar, þ.e. að þetta sé ekki bara á forræði einstakra skóla heldur verði tekin ákvörðun um að framhaldsskólanámið skuli verða þrjú ár að jafnaði. Það er ekki þar með sagt að allir skuli klára á þremur árum. Það getur áfram verið svigrúm fyrir þá sem þurfa að geta verið lengur þegar það hentar, eins og nú er.

Það er líka rétt að hafa í huga að það er ekki bara námstíminn einn og sér sem hér skiptir máli. Það er auðvitað öll umgerðin um námið og sú staðreynd að hér er töluvert mikið brottfall. Það er líka sú staðreynd að þegar horft er til þess hversu stór hluti íslenskra ungmenna sem hefur nám að loknum grunnskóla í framhaldsskóla hefur lokið prófi í framhaldsskóla á tilteknum tíma kemur í ljós að við Íslendingar sitjum þar töluvert eftir miðað við aðrar þjóðir. Einungis 44% af okkar námsmönnum, sé horft til árgangsins 2007, höfðu lokið einhverju lokaprófi úr framhaldsskóla. Sé það borið saman t.d. við Danmörk er hlutfallið um 60%. Það sýnir auðvitað að við þurfum að gera betur og það er nauðsynlegt að gera betur, ekki til þess sem eitthvert meginmarkmið að spara peninga fyrir ríkið heldur til að spara tíma nemendanna og gera þeim kleift að efla sitt nám og efla sína stöðu.