143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að það sé hluti af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ákveða framhald málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu, það er ekki rétt. (PVB: Það stendur samt í henni.) Það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum og það var heldur ekki stefna flokkanna eftir landsfundi þeirra fyrir kosningar. En það er hins vegar rétt sem hefur komið fram í umræðunni að ég hef mjög gjarnan viljað virkja vilja þjóðarinnar í þessu máli og ég tel að það sé að koma æ betur í ljós, ef við horfum til reynslunnar á síðasta kjörtímabili og þó ekki væri nema þessarar nýjustu skýrslu, að eina leiðin til að gera það þannig að eitthvað sé hægt að vinna með niðurstöðuna, væri að gera það með þjóðaratkvæðagreiðslu um viljann til að ganga í Evrópusambandið, enda hafi menn sett það á dagskrá.

Hér finnst mér líka skipta máli að þjóðaratkvæðagreiðsla ætti kannski fyrst og fremst að koma til álita ef menn eru að breyta utanríkisstefnunni í einhverjum veigamiklum atriðum en ekki þegar flokkar ætla einfaldlega að viðhalda henni eins og hún er.