143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins felldi tillögu um að slíta viðræðum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti sömuleiðis að forsenda framhaldsaðildarviðræðna væri þjóðaratkvæðagreiðsla. (Gripið fram í.) Það sem skiptir samt meira máli í þessari viðræðu sem þingið á við formann Sjálfstæðisflokksins er: Hvað sagði hann?

Hæstv. fjármálaráðherra sagði þegar hann hratt úr vör kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins á Hótel Loftleiðum 23. mars að skoðun hans væri sú að það bæri að hafa þá þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið á fyrri hluta kjörtímabilsins. En umburðarlyndur hæstv. forsætisráðherra hefur mörgum sinnum sagt að það býttaði hann engu hvenær sú atkvæðagreiðsla yrði.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði síðan í Hörpu á haustmánuðum að hann væri enn þá sama sinnis um þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins. Þess vegna verð ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Ætlar hann ekki að standa við þau orð sín? Það er mjög sjaldgæft að hæstv. fjármálaráðherra tali hulduhrútslega um hluti sem hann hefur kynnt sér vel en mér finnst hann fara hér mjög undan í flæmingi. Þetta finnst mér hann þurfi að skýra.

Hitt atriðið sem ég vil gera að umræðuefni er það að mér finnst margt merkilegt í þessari skýrslu. Hún er fyllilega umræðunnar virði og mér finnst þetta hafa verið málefnaleg umræða. Það hafa komið fram mismunandi skoðanir á því hvernig beri að túlka ýmislegt í skýrslunni. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera þannig að það sé opið að þingið taki hana til umræðu í viðeigandi fagnefnd. Ég geng út frá því og hef alltaf gert það og hef skilið það þannig að skýrslan yrði rædd í hv. utanríkismálanefnd. Ég tel annað ekki koma til greina. Mér finnst ekki hægt að þingið skili að öðru leyti auðu. Ég vildi gjarnan spyrja, þó að ég sé þakklátur hæstv. fjármálaráðherra fyrir að segja að hann sé opinn fyrir því: Er það ekki þannig sem við vinnum í þessum sal? Er það ekki hefð þingræðisins, samanber fjölda annarra skýrslna sem hefur verið afgreiddur með þeim hætti?