143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Vinnubrögð hæstv. forseta hafa valdið mér gríðarlegum vonbrigðum í þessu máli. Hér liggur fyrir ein af stærri ákvörðunum Íslandssögunnar, eitt af stærstu og mestu deilumálum Íslendinga um áratugi. Það hefur verulega miklar afleiðingar fyrir okkur á alþjóðavettvangi ef við slítum þessum viðræðum, án raka eins og mér sýnist vera fyrirliggjandi, og það að leggja fram tillögu þessa efnis undir kvöldmat á föstudegi og ætlast til þess að við ræðum hana síðan síðdegis á mánudegi og ræðum síðan einhver önnur lagafrumvörp á morgun eins og dagskrá þingsins er fyrirliggjandi núna — ég skil ekki hvað er í gangi í hausnum á virðulegum forseta, að detta þetta í hug án samráðs við aðra flokka á Alþingi.

Þetta er ekki einhver tittlingaskítur sem við erum að fara að ræða hérna. Þetta eru svik, þetta er forræðishyggja, þetta er ofbeldi, þetta er yfirgangur og þetta er án raka. Það liggur fyrir að komin er skýrsla um stöðu viðræðnanna og auðvitað þarf að ræða hana fyrst. Það þarf efnislega meðhöndlun á þeirri skýrslu (Forseti hringir.) — eða hefði ríkisstjórnin kannski frekar viljað slíta þessu fyrst og ræða svo skýrsluna? Hmm? (Forseti hringir.) Skjóta fyrst, spyrja svo?