143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[16:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði í umræðum fyrir helgina að það væri langheiðarlegast að ríkisstjórnin hætti viðræðum því að það væri enginn áhugi hjá henni á að halda þeim áfram. Hvað hefur breyst yfir helgina hjá hv. þingmanni miðað við orð hennar nú?

Mig langar hins vegar að koma því á framfæri að það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við málsmeðferð á þessu máli, ekki neitt. Tillaga er búin til í ríkisstjórn, samþykkt þar, lögð fram og dreift á Alþingi. Á hún ekki bara að komast til umræðu eða eru þingmenn ef til vill hræddir við að fara í efnislega umræðu um þessa skýrslu? Getur verið að þingmenn Vinstri grænna vilji til dæmis alls ekki lenda í því að þurfa að greiða atkvæði um slíka tillögu? Getur það verið? [Háreysti í þingsal.] Eru það sporin sem hræða þar?

Það sem er samt mikilvægast að koma á framfæri (Gripið fram í: … skýrsla …) er að hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, skuli leyfa sér að tala enn og aftur niður til starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem sömdu lögfræðiálit sem fór til utanríkismálanefndar. (Gripið fram í.) Enn og aftur heggur hann í sama knérunn (Gripið fram í: … álitið.) og sakar þá um [Háreysti í þingsal.] að vinna illa og skila vondu verki. En það er hægt að benda hv. þingmanni, sem ég held að sé löglærður, á það að enginn málsmetandi lögfræðingur hefur mótmælt þessari niðurstöðu lögmanna utanríkisþjónustunnar.