143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[16:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki eiga sér aðrar málsvarnir í þessari umræðu en dylgjur og áburð á aðra stjórnmálamenn. Endurtekið notar hæstv. ráðherra ræðutíma sinn hér í ræðustólnum eingöngu í þessu skyni. Það bendir yfirleitt ekki til þess að mönnum líði vel með það sem þeir eru að gera sjálfir. (Utanrrh.: Talar …) Hæstv. utanríkisráðherra hefur að mínu mati með framlagningu þessarar tillögu, þ.e. ekki tillögugreinarinnar þótt hún sé skondin, slegið met held ég í þingsköpum með ómerkilegheitum og það er í greinargerð tillögunnar. Ég held að þetta hljóti (Gripið fram í.) að vera nokkurn veginn hápunktur á lágkúruskap í stjórnartillögu að fara út í dylgjur og áburð af því tagi sem (Utanrrh.: … logið …) greinargerðarhöfundarnir þarna gera.

Ég veit að vísu ekki hversu mikill verkmaður hæstv. utanríkisráðherra er en hann ber að minnsta kosti ábyrgð á greinargerðinni. Satt best að segja trúi ég því ekki upp á nokkurn einasta mann, starfsmann eða embættismann í utanríkisráðuneytinu, að hafa sett svona texta á blað. (Forseti hringir.) Þarna eru fingraför hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar auðsjáanlega á ferð og megi hann hafa mikla skömm af þessu þingmáli. (Gripið fram í.)