143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:05]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög skelegga og góða ræðu eins og hans er von og vísa. Eitt af því sem mjög mikið er rætt um í sambandi við Evrópusambandið — þeir sem eru kannski fegnastir því að það á að fara að slíta þessum viðræðum eru bændur þessa lands. Ég er mikill áhugamaður um bændur og landbúnað og að hann virki vel á Íslandi. Við höfum ekki verið í Evrópusambandinu svo að ég viti en samt hefur landbúnaður verið á hraðri niðurleið á Íslandi, búum hefur fækkað og samdráttur hefur verið í landbúnaðarmálum. Er það ekki rétt hjá mér? Hefur búum ekki fækkað á Íslandi?

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Getur verið að eitt það besta sem komið gæti fyrir íslenskan landbúnað væri að ganga í ESB? Nú er til dæmis til sjóður sem heitir Dreifbýlissjóður. Hafa framsóknarmenn lesið um hvað hann er, Dreifbýlissjóðurinn, bændur þessa lands sem lepja dauðann úr skel, ríkisstyrktir?