143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim fjórum þingmönnum sem veittu mér þá ánægju að koma í andsvar við mig og alveg sérstaklega framsóknarþingmönnum, hv. þingmanni sem hér kom. Ég var mjög ánægður með það.

Hv. þingmaður las upp úr skýrslunni um dreifbýlisstyrkina o.fl. Ég gerði að umtalsefni byggðastefnu Norðmanna og þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir frá ríkisstjórninni um nýja byggðaáætlun. Það sem gladdi mig mjög í þeirri skýrslu var hve sá sem flytur hana, ráðherra Framsóknarflokksins, tekur mikið tillit til byggðastefnunnar sem þar er og óskar þess heitt að gera þá byggðastefnu að okkar.

Hv. þingmaður las upp úr skýrslunni varðandi landbúnaðarkaflann og vil ég skora á þá fjóra dyggu framsóknarmenn sem sitja hér inni — fimm ef ég tel yfir í hliðarsalinn, þarna er komin einn í viðbót — að koma hér og ræða við okkur þingmenn um landbúnaðarkaflann. Komið og segið okkur hvað ykkur finnst um það sem þar er sett fram og látið okkur heyra hvað er slæmt og hvað er gott.