143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[14:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég greindi frá því í ræðu minni núna áðan að ég hefði sent forsætisnefnd bréf. Ég óska eftir því að það bréf verði tekið til umfjöllunar í forsætisnefnd áður en tillaga til þingsályktunar verður rædd sem ríkisstjórnin hefur lagt fram með ávirðingum á þá þingmenn sem hér greiddu atkvæði árið 2009. Það er algert nýmæli ef slúður og slaður er orðin efnismálsgrein númer tvö í greinargerð ríkisstjórnarinnar með málum hennar eins og hér er. Ég fer því fram á það við virðulegan forseta að þetta mál verði skoðað, að gerð verði athugun á því hvaða gögn ríkisstjórnin hefur sem styðja það að þingmenn hafi brotið gegn stjórnarskrá og ekki fylgt sannfæringu sinni í atkvæðagreiðslu. Ég fer fram á að það verði gert áður en þingsályktunartillagan verður tekin á dagskrá, að þangað til málið hefur verið skoðað verði hún tekin af dagskrá og ekki borin hingað inn fyrr en þessi gögn hafa verið lögð fram og kynnt á þinginu.