143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:51]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Fjármálaráðherra hefur boðað endurskoðun á lögum um Seðlabankann og hefur núverandi bankastjóra verið tilkynnt að staða hans verði auglýst, enda eru fimm ár liðin frá skipunartíma hans. Því ber að fagna að þessi leið skuli farin. Það er löngu orðið tímabært að skilgreina betur hlutverk Seðlabankans og verkaskiptingu á milli hans og Fjármálaeftirlitsins.

Hér vakna tvær spurningar. Sú fyrri snýr að stöðu bankastjórans. Er verið að tilkynna honum að staða hans verði auglýst vegna þess að pólitískar skoðanir hans fara kannski ekki saman við skoðanir stjórnvalda? Ég tel það af og frá. Samkvæmt 23. gr. seðlabankalaga er skipunartími bankastjóra fimm ár. Í upphaflegu frumvarpi 2001 var gert ráð fyrir sjö ára skipunartíma en því var breytt í meðförum þingsins.

Í greinargerð með seðlabankafrumvarpinu sagði að með skipunartímanum væri leitast við að tryggja stöðugleika í bankanum en einnig hæfilega endurnýjun. Í raun tel ég að það ætti að vera regla frekar en undantekning að embætti ríkisins séu auglýst að fimm árum liðnum. Í dag er það frekar undantekning. Viðkomandi embættismenn geta að sjálfsögðu sótt um aftur og ef þeir eru hæfastir eru þeir ráðnir. Hvað hafa þeir að óttast? Ef Már Guðmundsson er hæfastur sem seðlabankastjóri verður hann örugglega ráðinn, enda er faglega farið yfir umsóknir af þriggja manna nefnd.

Hin spurningin sem vaknar snýr að bankanum sjálfum og sjálfstæði hans. Flestir eru sammála um að sjálfstæði Seðlabankans sé mikilvægt, en það er ekki þar með sagt að ekki megi gagnrýna gjörðir hans. Það að túlka gagnrýni sem íhlutun á ekki rétt á sér í þessu tilviki. Það eru varla til þau stjórnvöld eða hagsmunahópar sem hafa ekki gagnrýnt Seðlabankann í gegnum tíðina, enda er verksvið hans þess eðlis að það kallar á umræðu og gagnrýni úr ýmsum áttum. Það að kalla þau skoðanaskipti íhlutun er í besta falli högg fyrir neðan beltisstað, enda mun bankinn vonandi aldrei starfa í tómarúmi. Sem slíkur yrði hann lítils virði.