143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir efnisríka og góða ræðu og sérstaklega fyrir nálgun hennar á spurninguna um aðild að Evrópusambandinu.

Ég ætla að gera þá játningu að þegar hún flutti ræðu sína hugsaði ég aftur til þess sem ég var stoltastur af og glaðastur yfir að taka þátt í sumarið 2009, sem var ákvörðun frjálshuga þingmanna úr öllum flokkum um að gera það sem þeir töldu skynsamast og réttast en jafnframt láta ákvörðunarvaldið um aðild að Evrópusambandinu í hendur þjóðarinnar í fyllingu tímans.

Það er auðvitað sorglegt að okkur hafi ekki tekist að halda því máli upp úr flokkahjólförum þann tíma sem síðan er liðinn. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er ekki til farsældar fallið að meiri hluti í einstökum flokkum reyni að kúga fram niðurstöðu í þessu máli, en ég vil spyrja hv. þingmann vegna þess að hún er tillögugóð: Hvaða leiðir sér hún fram á við? (Forseti hringir.) Hvernig getum við komið á málefnalegum grunni í þessu máli sem mætir þörfum atvinnulífs og verkalýðshreyfingar, mætir þörfum þingsins og þjóðarinnar allrar um samstöðu í þessum málaflokki?