143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera áhugaverð umræða hér í kvöld. Ég er búinn að hlusta á alla umræðuna og einnig í gær, reyndar mikið úr hliðarsal, það fer ágætlega um mann þar.

Fyrir skömmu birtist ágæt grein í Morgunblaðinu sem tveir fyrrverandi þingmenn Vinstri grænna skrifuðu, Atli Gíslason og Jón Bjarnason. Hvet ég fólk til að lesa þá ágætu grein.

Það efni sem hér hefur verið rætt mikið undir liðnum um fundarstjórn forseta er varðar greinargerð með tillögu, sem er reyndar ekki til umræðu hér í dag, er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Eflaust mun þetta efnisatriði verða rætt þegar tillagan kemst á dagskrá. Ég hef hins vegar hlustað eftir því sem hér hefur verið sagt og það kom reyndar ekki almennilega í ljós fyrr en í ágætu andsvari hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um hvað málið snerist í raun, hvað það var sem ýfði hér hárin á hv. þingmönnum.

Ég hef því ákveðið í þágu þess að liðka yfir þingstörfum að taka til endurskoðunar þann hluta sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi í andsvari sínu og taka tillit til þeirra athugasemda sem þar komu fram og mun prenta upp greinargerðina með þeim breytingum.